Fullkomið Lasagne með nóg af ostum!

Lasagne er einn af mínum eftirlætis réttum og ég elska að búa til gott Lasagne með mörgum tegundum af osti því eins og þið hafið eflaust tekið eftir á þessu bloggi að þá elska ég ost. Ég passa mig að gera alltaf mikið af Lasagne í einu og sker afganginn í nokkra bita sem ég frysti og get þá gripið í við og við. Mæli svo sannarlega með því!

Fullkomið Lasagne með nóg af ostum.

Fyrir 4-6

Hráefni:

  • 1 msk ólífuolía
  • 1 stilkur sellerí
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 10 sveppir
  • 800 g nautahakk
  • Salt og pipar
  • 1 msk smátt söxuð steinselja
  • 1 msk smátt söxuð basilíka
  • Spínat
  • 2 krukkur maukaðir tómatar frá merkinu Ítalía (hver krukka 425g)
  • Handfylli fersk basilíka (..já aftur meiri basilíka)
  • 1 kjúklingateningur
  • Rifinn mozzarella ostur
  • Parmesan ostur
  • 200 g kotasæla
  • Lasagne plötur

Aðferð:

  1. Hitið ólífuolíu í stórum og góðum potti (megið auðvitað nota pönnu en mér finnst best að gera þetta allt saman í einum potti)
  2. Skerið sellerí, lauk, hvítlauk og sveppi mjög smátt og steikið við vægan hita í 1 – 2 mínútur.
  3. Setjið hakkið út í pottinn og steikið, kryddið til með salti og pipar.
  4. Bætið kryddjurtum út í pottinn og steikið áfram þar til hakkið er eldað í gegn.
  5. Því næst fara maukaðir tómatar út í pottinn ásamt handfylli af basilíku, spínati og kjúklingatening. Hrærið vel í hakkblöndunni og leyfið þessu að malla við vægan hita í 10 – 15 mínútur. Ef ykkur finnst sósan of þykk er gott að bæta við soðnu vatni.
  6. Hitið ofninn í 180°C.
  7. Setjið 1/3 af hakkblöndunni í eldfast mót, setjið mozzarella, parmesan og svolítið meira af spínati yfir. Því næst raðið þið lasagne plötum yfir (mér finnst best að nota ferskar). Setjið nokkrar skeiðar af kotusælu yfir lasagne plöturnar, dreifið vel úr og endurtakinn leikinn þar til eruð komin með þetta fína lasagne í nokkrum lögum.
  8. Stráið mozzarella og nýrifnum parmesan osti yfir í lokin og bakið við 180°C í 30 – 35 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.

Það er nauðsynlegt að leyfa lasagne að kólna vel áður en þið berið það fram. Ferskt salat og hvítlauksbrauð er fullkomið meðlæti.

 

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *