Dásamlegar vöfflur með súkkulaðibitum

Þann ellefta júlí átti litli bróðir minn hann Allan Gunnberg afmæli, hann er orðinn nítján ára. Ég ákvað að baka vöfflur og súkkulaðiköku í tilefni dagsins, ég prófaði að setja súkkulaðibita í vöfflurnar og það kom ferlega vel út og því langaði mig til þess að deila með ykkur uppskriftinni. 
Tíminn flýgur þessa dagana og ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að blogga, því nú verr og miður. Vinnan, bókin, íbúðarleit í borginni og margt annað á hug minn þessa dagana en mér finnst voðalega leiðinlegt að ná ekki að sinna blogginu eins og ég vildi. En það er margt mjög skemmtilegt framundan hvað varðar bloggið og ég hlakka til þess að deila því með ykkur þegar nær dregur. Það er kannski góðs viti ef maður hefur ekki mikinn tíma til þess að vera fyrir framan tölvuna á sumrin, ekki það að ég sé úti að baða mig í sólskini heldur þá er svo gott að hafa nóg fyrir stafni. 
Hér kemur uppskriftin, ég vona að þið njótið vel kæru vinir. 
Vöfflur með súkkulaðibitum
400 ml AB mjólk 
4egg 
300 g hveiti
1 tsk matarsódi
2 msk sykur
1/2 tsk salt
2 – 3 tsk vanillusykur  (eða dropar)
4 msk smjör, brætt 
100 g súkkulaði, smátt saxað
1. Þeytið eggin og AB mjólkina saman. 2. Blandið þurrefnum saman í skál og bætið saman við eggjablönduna ásamt smjörinu. 4. Saxið súkkulaði mjög smátt og bætið saman við í lokin, hrærið vel í blöndunni en athugið að hræra ekki of lengi. 4. Bakið vöfflurnar í vöfflujárni og staflið þeim á fallegan disk. 
Gott er að bera vöfflurnar fram með þeyttum rjóma, ferskum jarðaberjum og strá svolítið af flórsykri yfir. Einnig er sulta og rjómi alltaf klassískt og mjög gott. 
Sjá þennan litla krúttlega strák, ég man svo vel eftir því þegar þessi drengur kom í heiminn. 
…og nú er hann orðinn nítján og næstum því fullorðinn.  
Þetta var virkilega huggulegur hádegisverður, vöfflurnar runnu ljúflega niður í gestina. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir og njótið vel. 
Ég vona að þið eigið ljúfan dag framundan. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *