Amerískar pönnukökur með Ricotta osti og æðislegt túnfisksalat

Bröns er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og ég hef nú komið að hér áður, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég elska þegar tími gefst fyrir brönsboð um helgar og mig langar að deila með ykkur uppskriftum sem eru skotheldar í slík boð. Annars vegar safaríkar og ótrúlega góðar pönnukökur sem eru að mínu mati ómissandi í brönsinn.. að þessu sinni inniheldur uppskriftin Ricotta ost en osturinn gerir pönnukökurnar einstaklega safaríkar og ‘fluffy’, fullkomnar pönnukökur sem ég mæli með að þið prófið. Hin uppskriftin er að æðislegu túnfisksalati sem ég fæ ekki nóg af.

Vonandi eigið þið eftir að prófa þessar uppskriftir og ég vona auðvitað að þið njótið vel. Góða helgi!

Amerískar pönnukökur með Ricotta osti

  • 5 dl hveiti
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 tsk vanilla
  • 1 egg
  • 4 dl mjólk
  • 2 dl Ricotta ostur
  • 3 msk brætt smjör + meira til steikingar
  • salt á hnífsoddi
  • 2 msk sykur

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.
  2. Pískið saman egginu, mjólkinni, vanillu og Ricotta ostinum.
  3. Bræðið smjörið á pönnu.
  4. Hellið eggjablöndunni við þurrefnin og hrærið vel, bætið sykrinum og smjörinu saman við í lokin.
  5. Hitið smá smjör á pönnu og steikið pönnukökurnar á hvorri hlið í ca. mínútu, þær eru tilbúnar þegar þær eru gullinbrúnar.
  6. Berið pönnukökurnar fram með sírópi og ferskum berjum.

Ferskt og fljótlegt túnfisksalat

  • 200 g sýrður rjómi
  • 5 msk majónes
  • 2 harðsoðin egg
  • 130 g túnfiskur í dós
  • 1/2 rauðlaukur, smátt skorin
  • 1/2 agúrka, smátt skorin
  • 1/2 grænt epli, smátt skorið
  • salt á hnífsoddi
  • 1/2 – 1 tsk sítrónupipar

Aðferð:

  1. Skerið hráefnin afar smátt og blandið öllu saman í skál, sigtið olíuna eða vatnið frá túnfiskinum og bætið honum saman við. Kryddið til með salti og sítrónupipar.
  2. Geymið salatið í kæli að lágmarki í hálftíma áður en þið berið það fram, með því verður salatið mun bragðmeira og betra.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *