Pekanpæ – fullkomið á haustin

Ég elska góð pæ og þá sérstaklega þetta pekanpæ sem ég ætla að deila með ykkur en uppskriftin er í kökubókinni minni Kökugleði Evu, það er að verða komið ár frá því að bókin kom út!! Tíminn gjörsamlega flýgur áfram og ég ætla í tilefni þess að hún á ársafmæli að vera dugleg að baka upp úr henni og deila uppskriftum með ykkur í leiðinni.

Ég fékk svo mikla löngun í þetta pæ þann sjöunda september.. og daginn eftir fór ég af stað og eignaðist hana Kristínu Rannveigu, ég vil þess vegna meina að pekanpæið hafi komið mér af stað 😉 Svo ef þið eruð á lokametrunum á meðgöngunni þá mæli ég sérstaklega með þessum bakstri.

Hér er uppskriftin – njótið vel.

Pekanpæ með súkkulaðibitum

Botn:

 • 100 g smjör, við stofuhita
 • 180 g hveiti
 • 1 eggjarauða
 • salt á hnífsoddi
 • 1 tsk vanilla
 • 2 – 3 msk ískalt vatn

Aðferð:

 1. Hnoðið öllu saman með höndum eða setjið í matvinnsluvél.
 2. Sláið deiginu upp í kúlu og geymið í kæli í 15 – 20 mínútur.
 3. Stráið smávegis af hveiti á borð og fletjið deigið út, setjið deigið í bökuform og útbúið fyllinguna.

Fylling:

 • 50 g smjör, við stofuhita
 • 180 g sykur
 • 220 ljóst síróp
 • 3 egg
 • 1 tsk vanilla
 • 130 g súkkulaði, ég notaði suðusúkkulaði
 • 170 g pekanhnetur

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Þeytið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós.
 3. Bætið sírópinu saman við og hrærið í eina til tvær mínútur.
 4. Bætið eggjum saman við, einu í einu og þeytið vel á milli.
 5. Saxið súkkulaði og hnetur frekar smátt og bætið við ásamt vanillu.
 6. Hellið fyllingunni ofan í bökuskelina og bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur.
 7. Berið pæið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *