Afhverju geta ekki allir mánudagar verið bolludagar?

Það er alltaf svolítið erfitt að vakna á mánudögum eftir ljúfa helgi. Augnlokin virðast vera  þúsund kíló og rúmið aldrei jafn heillandi. Ég stökk fram úr rúminu með látum í morgun, fékk þá tilfinningu að ég væri búin að sofa yfir mig. Það er svo óþægileg tilfinning. Ég leit á klukkuna og þá var dágóður tími þar til hún átti að hringja. Ég leit aftur á rúmið og hugsaði hvað það væri nú gott að skríða aftur upp í, ég ætti heilar  30 mínútur til góða í svefn. Í miðjum svefn pælingum þá áttaði ég mig á því að í dag er dagurinn sem gleður mig einna mest. Bolludagurinn! Þrátt fyrir að ég sé búin að fagna bolludeginum í nokkra daga þá er nauðsynlegt að fagna honum enn einu sinni. Ég dreif mig út í bakarí, vegna þess að mér finnst bollurnar svo góðar í Brauða-og kökugerðinni. Keypti eina bollu handa mér með bleikum rjóma og eina súkkulaðibollu handa honum Hadda mínum. 
Ég náði mér í Fréttablaðið í leiðinni, fór heim og bjó mér til indælis cappuccino og gæddi mér á ljúffengri bollu. Ég naut þess að vera vöknuð snemma á mánudegi og gleymdi því í augnablik að þetta væri mánudagsmorgun, vikan hefur aldrei byrjað svona huggulega áður. Ég skil ekkert í því afhverju allir mánudagar eru ekki rjómabolludagar? Vissulega er þetta örlítið þyngri máltíð en hafragrauturinn en það er nú eitthvað sem eitt gott útihlaup getur ekki reddað. Allt er þess virði ef það er bæði gott og huggulegt. Þá er allt svo indælt! Ef ekki væri fyrir bolludaginn þá hefði ég skriðið aftur upp í og sennilega sofið yfir mig eftir allt saman.

Ég vona svo sannarlega að þið eigið ljúfan dag kæru vinir og njótið þess að fá ykkur eina bollu eða tvær… eða þrjár. Hver er svosem að telja?

xxx

Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *