Pönnusteikt langa með blómkálsmauki, ferskum aspas og lauksmjöri.

Pönnusteiktur fiskur er alltaf brjálæðislega góður og ég elska glænýjan fisk í smjörsósu, það er einfaldlega best. Það tekur enga stund að útbúa þessa máltíð og það má eiginlega flokka þennan rétt sem skyndibita, þar sem vinnuframlagið er lítið sem ekki neitt en útkoman stórkostleg! Ég eldaði þennan fisk fyrir viku og get ekki beðið eftir kvöldmatnum í kvöld en það er einmitt fiskur á boðstólnum. Stórgóð byrjun á vikunni og við þurfum stórgóða byrjun til þess að þola þessa rigningu.

 

Pönnusteikt langa með blómkálsmauki, ferskum aspas og lauksmjöri.

Fyrir 3-4

  • 800 g langa, roð- og beinlaus
  • Olía
  • Smjör
  • Salt og pipar
  • 4 dl Mjólk
  • 4 dl Hveiti

Aðferð:

  1. Skerið lönguna í jafn stóra bita, setjið hvern bita ofan í mjólkina og því næst ofan í skál með hveiti, salti og pipar.
  2. Hitið olíu á pönnu og steikið fiskinn í nokkrar mínútur á hvorri hlið (ég myndi segja ca. 3 mínútur).
  3. Það er mjög mikilvægt að pannan sé mjög heit þegar fiskurinn fer á en annars verður hjúpurinn ekki nógu stökkur. Bætið smjöri út á pönnuna í lokin og hellið vel yfir fiskinn, það er nauðsynlegt að hafa nóg af smjöri!

Blómkálsmauk

  • 1 stórt  blómkálshöfuð
  • Smjör
  • Rjómi
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið blómkálið bita og sjóðið í söltu vatni þar til blómkálið er orðið mjúkt.
  2. Hellið soðvatninu af og setjið blómkálið í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota, bætið smjöri  við og rjóma eftir smekk (magnið fer eftir því hversu þykkt maukið á að vera).
  3. Kryddið til með salti og pipar.

Lauksmjör

  • Smjör
  • 1 laukur

Aðferð:

  1. Afhýðið laukinn og skerið í þunnar sneiðar, setjið í pott ásamt smá smjöri og steikið þar til laukurinn er orðinn mjúkur í gegn. Þá bætið þið enn meiri smjöri saman við sem þið hellið síðan yfir fiskinn þegar hann er klár.

Ég var líka með aspas og gulrætur sem ég sauð í söltuðu vatni í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið var mjúkt í gegn.

Glænýr og ljúffengur fiskur á mánudegi – betra verður það ekki!

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *