Ómótstæðileg egg

 Egg eru frábær fæða, þau eru bæði næringarrík og orkurík. Ég borða mikið af eggjum og þá sérstaklega á morgnana. Ég skelli yfirleitt í einfalda eggjahræru, en þá hita ég smá smjör í potti og píska tvö egg sem ég steiki upp úr smjörinu og krydda aðeins með salti og pipar. Einfalt og ótrúlega gott. Þegar ég hef hins vegar aðeins meiri tíma þá elska ég að fá mér ‘poached egg’ eða hleypt egg eins og það heitir á íslensku, en þá er eggið soðið í smá stund og eggið verður þannig í laginu að rauðan er silkimjúk að innan. Ég fæ í alvöru vatn í munninn að skrifa um þessi egg vegna þess að mér þykja þau svo góð… hér er uppskrift að hollari útgáfunni að Egg Benedict sem flestir kannast við.

Hleypt egg með lárperu og kirsuberjatómötum

 • 1-2 egg
 • 1 l vatn
 • Salt og pipar
 • Gott gróft brauð
 • Smjör eða góð ólífuolía
 • Lárpera
 • Klettasalat
 • Kirsuberjatómatar
 • Parmesan ostur
Aðferð:
 1. Poached egg eða hleypt egg eru linsoðin egg án skurnar. Það er mjög
  mikilvægt að eggin séu fersk. Setjið vatn í pott og saltið vatnið smávegis.
  Látið suðuna koma upp, lækkið aðeins undir pottinum en látið hann samt halda
  vægri suðu.
 2. Brjótið egg í bolla eða skál og hellið egginu mjög varlega út í vatnið. Ýtið
  aðeins við eggið þannig það haldist betur saman, sjóðið í 3 mínútur. Takið
  eggið upp úr pottinum með spaða t.d. fiskispaða og leggið á eldhúspappír, kryddið til með salti og pipar.
  Ekki gefast upp ef þetta tekst ekki í fyrsta skiptið, það tekur smá tíma að ná
  egginu eins og maður vill hafa það. Trúið mér, ég er búin að æfa mig lengi 😉
  En það skiptir svosem ekki máli hvernig eggið lítur út, það bragðast alltaf
  jafn vel.
 3. Skerið niður gróft brauð, ristið og smyrjið smjöri eða olíu á brauðið.
 4. Raðið lárperu, klettasalati og tómötum yfir brauðið. Leggið síðan eggið
  yfir og rífið niður Parmesan ost. Bara svona rétt í lokin… til að fá þetta
  extra.
Borðum meira af eggjum… þau eru svo góð.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *