Kanilkaka sem ég fæ ekki nóg af

 

Við fjölskyldan erum í góðu yfirlæti á Hvolsvelli og
njótum þess að liggja í leti. Eitt af því sem mér þykir skemmtilegast er að
baka góða köku á sunnudögum – að vísu finnst mér gaman að baka alla daga en það
veitir mér enn meiri ánægju á sunnudögum og ekki veit ég afhverju það er. Í
morgun ákvað ég baka ljúffenga kanilköku eða ‘monkey bread’ eins og kakan heitir
á ensku. Ég hef legið yfir myndum og uppskriftum að þessari köku í langan tíma
en hún er vægast sagt girnileg og mamma mía hvað hún er góð! Kanilsnúðar og
kökur eiga vel við sunnudaga einhverra hluta vegna, heimilið verður svo hlýlegt
með góðum kanilkeim. Eitt af því góða við þessa uppskrift er að þið þurfið ekki
mörg hráefni og þið þurfið ekki hrærivél, svo þið ættuð að geta gert þessa köku
hvenær og hvar sem er. Tilvalið að baka þessa í sumarbústað til dæmis.

Kanilkaka með glassúr

*1 bolli = 2,5 dl
Deigið
  • 1 bolli nýmjólk
  • 1/3 bolli vatn
  • 3 msk smjör
  • 2 ½ tsk þurrger
  • ¼ bolli sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 3 ¼ bolli Kornax hveiti
  • salt á hnífsoddi
  • 1 egg

 

Kanilsykurblanda
  • 120 g brætt smjör
  • 1 ½ bolli sykur eða púðursykur
  • 3 tsk kanill

 

Aðferð:
  1. Hitið mjólk, vatn og smjör í potti við vægan hita. Leggið
    til hliðar og leyfið blöndunni að kólna í smá stund.
  2. Blandið þurrefnum saman í skál. Pískið eggið saman við mjólkina og hellið síðan vökvanum
    ásamt vanillu og vatni saman við, hrærið með sleif í smá stund, ef ykkur finnst deigið
    of blautt þá bætið þið smávegis af hveiti við.
  3. Leggið deigið á hveitistráð borð og hnoðið í nokkrar mínútur
    (með höndum eða í hrærivél ef þið viljið). Setjið deigið í hreina skál og
    leggið viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í
    klukkustund eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
  4. Þegar deigið er tilbúið skiptið þið því niður í jafn
    stóra bita og rúllið upp í kúlur sem þið veltið upp úr bræddu smjöri og síðan
    kanilsykrinum, því meira af kanilsykri því betri verða kúlurnar.
  5. Smyrjið hringlaga form (helst með gati í miðjunni en þess
    þarf auðvitað ekki). Raðið kúlunum ofan í formið og sáldrið síðan smávegis af
    kanilsykri yfir. Leyfið deiginu að hefa sig í 15 mínútur til viðbótar.
  6. Hitið ofninn í 180°C og bakið kökuna í 18 – 22 mínútur.
 *Á meðan kakan er í ofninum er gott að útbúa glassúrinn.
Vanilluglassúr
  • 1 bolli flórsykur
  • 2 msk mjólk
  • 1 tsk vanilla
Aðferð:
  1. Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið þar til
    kremið verður silkimjúkt, þegar kakan hefur kólnað hellið þið vel af glassúr
    yfir og njótið strax.

 

 

 

 

 

 

 

 

Njótið dagsins og gleðilegan konudag <3
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *