Æðislegt granóla sem allir ættu að prófa.

Ég er með æði fyrir granóla þessa dagana og mér finnst fátt betra en grísk jógúrt með því í morgunmat eða sem millimál. Það er ferlega einfalt að útbúa það og líka miklu skemmtilegra en að kaupa það tilbúið út í búð. Ég er yfirleitt aldrei með það sama í mínu granóla, ég nota bara það sem ég á til í skápunum hverju sinni. Það er ekkert heilagt við þessa uppskrift sem ég deili með ykkur í dag, hægt er að breyta og bæta hana að vild. Ég þori að lofa því að þið eigið eftir að gera ykkar eigið granóla aftur og aftur.

 

Ljúffengt granóla
  • 8 dl hafrar
  • 2 dl möndlur
  • 2 dl pekanhnetur
  • 2 dl sólblómafræ
  • 2 dl graskersfræ
  • 2 msk hörfræ
  • 2 dl eplasafi
  • 1 dl kókosolía
  • 2 – 3 msk. gott hunang
  • ½ tsk vanilluduft

 


Aðferð: Hitið ofninn í 170°C. Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og dreifið múslíinu á plötuna. Bakið í ca. 30 mínútur eða lengur. Fylgist vel með og hrærið nokkrum sinnum í blöndunni á meðan bökunartíma stendur.  Kælið vel áður en þið berið fram. Bætið t.d. þurrkuðum berjum eða kókosflögum við múslíið þegar það kemur út úr ofninum.
Hér fyrir neðan eru myndir sem sýna ykkur aðferðina sem er sérstaklega einföld.

 

 

 

 

 

Nú á ég ljúffengt granóla sem ég hlakka til að fá mér í fyrramálið. Ég vona að þið eigið góða helgi framundan kæru lesendur.
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *