Æðisleg rjómaostabrownie með hindberjum

Ég bakaði þessa stórgóðu og einföldu brownie með rjómaosti og hindberjum um síðustu helgi. Súkkulaði, rjómaostur og hindber eru auðvitað hin fullkomna þrenna. Þessa köku bakaði ég handa frænku minni sem hefur hjálpað okkur Hadda svo mikið undanfarnar vikur með hana Ingibjörgu Rósu. Við höfum verið að vinna mikið og hún hefur skotist frá Akranesi til Reykjavíkur og passað dömuna okkar í nokkur skipti. Það er sko ekki sjálfsagt að eiga svona góðar frænkur, svo mikið er víst. Við færðum henni þess vegna góða súkkulaðiköku sem við fengum svo auðvitað að smakka hjá henni, hehe. Kakan var ótrúlega góð, sérstaklega nýbökuð með ísköldu mjólkurglasi. Ég náði því nú verr og miður ekki að dunda mér við að taka myndir en þessar myndir koma því vonandi til skila hvað hún er girnileg og góð.
Rjómaostabrownies með hindberjum
Brownies uppskrift:
 • 150 g smjör
 • 250 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði
 • 200 g sykur
 • 2 stór egg
 • 100 g KORNAX hveiti
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 msk kakó
Rjómaostafylling:
 • 300 g hreinn rjómaostur frá MS
 • 70 g sykur
 • 1 egg

 

Aðferð: 
 • Hitið ofninn í 170°C (blástur).
 • Bræðið smjör við vægan hita, saxið súkkulaðið og bætið því við smjörið og leyfið því að bráðna í smjörinu. Takið pottinn af hellunni og leyfið súkkulaðiblöndunni að kólna.
 • Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu, hveiti og kakó saman við og hrærið þar til deigið er silkimjúkt. Í lokin hellið þið súkkulaðiblöndunni við og blandið vel saman.
 • Hellið deiginu í pappírsklætt form (20×20) og snúið ykkur að rjómaostafyllingunni.
 • Þeytið saman rjómaost við stofuhita, sykur og egg þar til blandan verður létt og ljós. Hellið rjómaostablöndunni yfir súkkulaðið og stingið nokkrum hindberjum ofan í kökuna.
 • Bakið við 170°C í 30 mínútur. Það er mjög mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg í forminu.
Kakan er auðvitað æðisleg með rjóma eða ís!
Njótið vel og eigið góðan sunnudag framundan.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *