Indverskt lambalæri
Fyrir 4 – 5
- 2 kg lambalæri (það var 2 kg með beininu, ég vigtaði það ekki úrbeinað)
- 350 g grískt jógúrt
- 5 hvítlauksrif
- ½ rautt chili
- 2 tsk salt
- 2 tsk pipar
- 2 tsk cumin
- 2 tsk karrí
- 3 tsk garam masala
- 2 tsk malaður kóríander
- 1 tsk kóríanderfræ
- 2 tsk rifið engifer
- Safi úr einni sítrónu
- Handfylli smátt saxað kóríander
- 2 laukar
- 2 msk olía
Aðferð:
- Blandið saman gríska jógúrtinu, kryddunum sem eru talin upp hér að ofan og smátt söxuðu kóríander, chili og nýrifnu engifer. Kreistið einnig sítrónusafa út í og hrærið öllu vel saman.
- Ég keypti úrbeinað lambalæri og nuddaði marineringunni vel á kjötið, setti kjötið í skál með marineringunni og leyfði því að standa í kæli í 24 klst. Það er alveg nóg að leyfa kjötinu að standa í marineringunni í 3 – 4 klst en það verður að sjálfsögðu bragðmeira því lengur sem það fær að draga í sig kryddin.
- Hitið ofninn í 180°C.
- Setjið kjötið í eldfast mót, skerið 2 lauka og setjið í mótið. Hellið smá olíu yfir og inn í ofn við 180°C í 40 mínútur. Stillið því næst á grillstillingu á ofninum og grillið lærið í 20 mínútur.
- Leyfið kjötinu að hvíla í lágmark 15 mínútur.
- Berið kjötið fram með raita jógúrtsósu, hrísgrjónum, naan brauði og nýja uppáhaldinu mínu, blómkáls-og kartöflu réttur sem þið þurfið að prófa.
Naan brauð
- 150 ml volgt vatn
- 200 g hveiti + meiri ef ykkur finnst deigið of blautt
- 2 tsk þurrger
- 1 tsk hunang
- 1 tsk salt
- 3 msk ab mjólk
- 1 msk ólífuolía
- 1msk brætt smjör
- 1 msk ólífuolía
- 1 hvítlauksrif
- ½ tsk salt
- 1 tsk smátt söxuð steinselja
Aðferð:
- Blandið vatni, geri og hunangi saman í skál.
- Leggið viskastykki standa yfir skálina og um leið og það byrjar að freyða í skálinni er gerið tilbúið.
- Bætið því næst hveitinu, saltinu, ab mjólkinni og ólífuolíunni saman við og hrærið vel saman.
- Stráið smá hveiti á borð og hnoðið þar til deigið verður samfellt og fínt, leyfið deiginu að hefast í klukkustund.
- Skerið deigið í litla bita og mótið kökur, þær eiga að vera fremur þunnar.
- Steikið á heitri pönnu á hvorri hlið í 1-2 mínútur.
- Blandið saman í skál, smjöri, olíu, salti, steinselju og hvítlauk og penslið á naan brauðin þegar þau eru nýsteikt. Það gefur þeim dásamlegan hvítlaukskeim! Má auðvitað sleppa því ef þið eruð ekki hrifin af hvítlauk.
Raita sósa
- 250 g ab mjólk
- ½ agúrka
- Salt og pipar
- 2 msk smátt saxður kóríander
Aðferð:
- Saxið hráefnin afar smátt og blandið öllu vel saman í skál, geymið helst í kæli í smá stund áður en þið berið sósuna fram
Aloo Gobi – með twisti!
Fékk hugmyndina hjá vinkonu minni henni Emilíu Ottesen
- 3 stórar bökunarkartöflur
- ½ höfuð blómkál
- 1 tsk salt
- Olía
- 3 tsk karrí
- 300 ml kotasæla
- 4 msk mango chutney (ég notaði chutney frá merkinu Geeta‘s og það var rosalega gott)
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C.
- Skerið kartöflur í litla teninga og blómkálið sömuleiðis smátt.
- Kryddið með salt og karrí, blandið vel saman og leggið í eldfast mót.
- Hellið vel af olíu yfir og eldið við 200°C í 20 mínútur.
- Þegar 20 mínútur eru liðnar af eldunartímanum, bætið þá kotasælunni og mango chutney saman við og hrærið vel. Eldið áfram í 20 mínútur og berið strax fram.
Þið getið fylgst með aðferðinni á Instagram en þið finnið mig undir evalaufeykjaran.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir