Ég veit fátt betra en nýbakaðar, dúnmjúkar súkkulaðibitakökur með ísköldu mjólkurglasi…. kökulöngunin getur komið upp hvenær sem er og þess vegna er gott að luma á einfaldri uppskrift að himneskum súkkulaðibitakökum með sjávarsalti. Það sem ég elska mest við þessar kökur, fyrir utan það hvað þær eru góðar er að ég frysti yfirleitt helminginn af deiginu og þess vegna get ég alltaf gripið í það deig og skellt í ofninn og þá er ég komin með nýbakaðar kökur á örfáum mínútum. Ekki að það taki langan tíma að útbúa deigið þá er þolinmæðin ekki upp á marga fiska suma daga og ég þarf mínar kökur! Þetta er auðvitað brjóstagjöfin sem kallar á þetta, annars væri ég auðvitað að fasta eftir klukkan 20.00 á kvöldin. Sagði ég…aldrei.
Súkkulaðibitakökur með sjávarsalti
- 220 g smjör
- 160 g sykur
- 130 g púðursykur
- 2 egg
- 2 tsk vanilla
- 1 tsk matarsódi
- Salt á hnífsoddi
- 340 g hveiti
- 200 g súkkulaði
- Sjávarsalt
Aðferð:
- Þeytið saman smjör, sykur og púðursykur þar til blandan er létt og ljós.
- Bætið eggjum saman við, einu í einu og þeytið vel á milli
- Sigtið þurrefnin saman og bætið þurrefnum smám saman við deigið ásamt vanillu.
- Bætið smátt söxuðu súkkulaði saman við í lokin
- Kælið deigið í ísskáp í ca. klukkustund áður en þið ætlið að baka kökurnar (eða til þess að flýta fyrir, þá rúlla ég deiginu upp í plastfilmu og skelli í frystinn í smá stund)
- Skiptið deiginu niður í jafn stóra bita og bakið við 180°C í 11 mínútur. Stráið sjávarsalti yfir kökurnar þegar þær eru nýkomnar út úr ofninum.
Njótið strax, helst með ísköldu mjólkurglasi.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.