Í síðustu viku hélt Ebba Guðný fyrirlestur hér á Akranesi. Hún fór yfir allskyns grunnatriði hvað varðar góða heilsu, bæði andlega og líkamlega. Hún fór yfir hvar við fáum lífsnauðsynlega fitu, góð prótein, hreinan mat og góð hráefni úr jurtaríkinu sem skipta okkur svo miklu máli. Þetta var mjög fróðlegur fyrirlestur, Ebba er líka svo dásamleg svo það var mikil ánægja að sitja fyrirlestur hjá henni. Ég var yfir mig spennt þegar ég var búin á námskeiðinu, ég dreif mig heim og undirbjó morgunmatinn fyrir næsta dag. Ég mæli með að þið farið á námskeið hjá henni Ebbu. Hér getið þið skoðað vefsíðuna hjá henni.
Heimatilbúin möndlumjólk og ljúffengur Chia grautur með mangóbitum.
Ég sá einfalda uppskrift að möndlumjólk hjá vinkonu minni henni Edit og ákvað að prófa.
Ég var mjög ánægð með útkomuna og það er gaman að búa til sína eigin mjólk.
Möndlumjólk
1 dl möndlur (ég notaði hýðislausar)
4 dl vatn
Aðferð:
Látið möndlurnar liggja í vatni í 15 – 20 mínútur. Hellið vatninu frá og setjið möndlunar í blandara, bætið 4 dl af vatni saman við og hrærið í nokkrar mínútur í blandaranum. Hellið mjólkinni í gegnum sigti en Ebba sagði að það væri líka alveg eins gott að drekka mjólkina án þess að sigta hana. Ég prófa það næst. Mjólkin geymist í kæli í 2 sólarhringa.
Chia grautur
‘Chia fræin eru ein kraftmesta, hentugasta og næringarríkasta ofurfæðan á markaðinum í dag. Þau eru frábær uppspretta af andoxunarefnum, heilpróteinum, vítamínum og steinefnum. Þau eru einnig ríkasta plöntuuppspretta omega-3 fitusýra sem að vitað er um.’
Ég er mjög hrifin af Chia fræjum og þessi grautur er mjög góður að mínu mati, ég á mjög auðvelt með að borða hann í morgunsárið.
2 msk. Chia fræ
200 ml. möndlumjólk
Mangó
Aðferð:
Látið Chia fræin liggja í möndlumjólkinni í lágmark 20 mínútur. Mér finnst best að leyfa þeim að liggja í mjólkinni yfir nótt. Það er rosalega gott að skera ávexti og þá sérstaklega mangó í litla bita og setja út í grautinn, algjört sælgæti. Ég mæli með að þið prófið þennan graut.
Ég vona að þið eigið góðan miðvikudag framundan kæru vinir.
xxx
Eva Laufey Kjaran