Í gær eldaði ég grænmetissúpu og bakaði einnig einfalt heilhveitibrauð með sólblómafræjum sem ég var svo ánægð með að ég verð að deila uppskriftinni með ykkur. Ég nota heilhveiti talsvert mikið í bakstur en heilhveiti er malað með kími og klíði og því mun næringarríkara en hvítt hveiti. Heilhveitið hentar vel til brauðgerðar en deig úr því er þó aðeins þyngra í sér en brauð úr hvítu hveiti, svo ef þið eigið uppskriftir þar sem eingöngu hvítt hveiti er notað þá er ágætt að setja minna af heilhveiti, alltaf að setja minna en meira en þá er svo auðvelt að bæta við ef þess þarf.
Fullkomið brauð fyrir útileiguna í sumar, tilvalið að skera það niður og setja gott álegg á milli og skella sér út í náttúruna. Einfaldara verður það ekki og ég hvet ykkur til þess að prófa þessa uppskrift.
Heilhveitibrauð með sólblómafræjum
- 100 g brætt smjör
- 4 dl nýmjólk
- 1 bréf þurrger (12 g bréfið)
- 1 msk hunang
- 1 tsk salt
- 400 g kotasæla
- ca. 750-800 KORNAX heilhveiti (+ aðeins meira ef þarf)
- 1 egg
- Sólblómafræ
Aðferð:
- Bræðið smjör í potti, bætið mjólkinni, þurrgerinu og hunanginu saman við og hrærið vel saman.
- Hellið blöndunni í hrærivélaskál ásamt saltinu, kotasælunni og hveitinu.
- Hnoðið deigið í hrærivélinni í um það bil 8 mínútur. (Það tekur aðeins lengri tíma að gera það í höndunum)
- Stráið hveiti á borðflöt og hnoðið deigið í smá stund með höndunum og mótið eina stóra kúlu.
- Færið kúluna yfir í hreina skál og leggið viskastykki yfir skálina. Leyfið deiginu að hefast í rúmlega klukkustund eða þar deigið hefur tvöfaldast að stærð.
- Hitið ofninn í 200°C (blástur)
- Skiptið deiginu niður í jafn stóra bita og mótið kúlur.
- Raðið kúlunum á pappírsklædda ofnplötu, þétt upp við hvor aðra.
- Penslið brauðið með eggi og sáldrið sólblómafræjum yfir.
- Bakið við 200°C í 15-20 mínútur.