Lokaþáttur af matreiðsluþáttunum mínum, Í eldhúsinu hennar Evu. Hátíðarmatur. Kalkúnabringa með dásamlegu meðlæti.

Eva eldar sannkallaðan hátíðarmat.

Ofnbakaðar kalkúnabringur
Uppskriftir miðast við fjóra

  • 1 kg kalkúnabringa
  • smjör
  • kalkúnakrydd
  • salt og pipar
  • 3 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur


Aðferð:
Hitið smjör á pönnu, kryddið bringuna með kalkúnakryddi, salti og pipar. Brúnið bringuna á öllum hliðum á pönnunni í örfáar mínútur. Setjið bringuna í eldfast mót. Sjóðið vatn og leysið kjúklingatening upp í vatninu, hellið vökvanum í eldfasta mótið. Gott er að setja smá smjörklípu ofan á bringuna áður en hún fer inn í ofn. Bringan er sett inn í ofn við 90°C í 1,5 klst. Gott er að stinga kjötmæli í bringuna eftir 1,5 klst. Mælirinn ætti að sýna 73–74°C. Þá er bringan tilbúin, ef ekki þá þarf hún að vera svolítið lengur í ofninum. Bringan þarf að hvíla þegar hún er komin út úr ofninum í 15–20 mínútur.

Sveppasósa

  • 250 g blandaðir sveppir
  • smjör
  • ½ l rjómi
  • 2 dl vatn + soð
  • 1 tsk. góð berjasulta
  • salt og pipar


Aðferð:
Skerið sveppina smátt. Steikið sveppina upp úr smjöri í potti og kryddið til með salti og pipar. Bætið síðan rjómanum saman við og leyfið sósunni að malla við vægan hita í nokkrar mínútur. Bætið út í vatni og soðinu sem kom frá kalkúnabringunni, hellið vökvanum sem er í eldfasta mótinu og bætið út í sósuna. Setjið smávegis af sultu saman við. Leyfið sósunni að malla svolítið lengur, smakkið auðvitað til og kryddið að vild.

Sætkartöflumús með piparosti

  • 5–600 g sætar kartöflur
  • 1–2 msk. smjör
  • 90 g rifinn piparostur
  • salt og pipar


Aðferð:
Sætar kartöflur eru skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Suðan látin koma upp og soðið í 25–30 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu er síðan hellt af. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með piparosti, salti og pipar.

Rósakál steikt á pönnu með beikoni og rjóma

  • 500 g ferskt rósakál
  • 100 g beikon
  • 1½  dl rjómi
  • salt og pipar


Aðferð:
Rósakálið er skolað, hreinsað og skorið í tvennt. Sjóðið rósakálið í léttsöltu vatni í 2–3 mínútur. Vatninu er síðan hellt af. Setjið smjörklípu á pönnu, skerið beikonið í litla bita og steikið á pönnunni. Bætið rósakálinu saman við beikonið og steikið í 5 mínútur við vægan hita. Rjómanum er síðan bætt út á pönnuna og kryddað til með salti og pipar. Leyfið rósakálinu og beikoninu að malla í rjómanum við vægan hita í nokkrar mínútur.

Waldorfsalat

  • 2 græn epli
  • 1½ sellerí
  • 25 græn vínber
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2–3 msk. þeyttur rjómi
  • 2 dl valhnetur, þurrristaðar á pönnu
  • 1 tsk. agavesíróp
  • smá súkkulaði til þess að strá yfir


Aðferð:
Kjarnhreinsið eplin, flysjið og skerið í litla bita. Skerið sellerí í litla bita. Skerið vínber í tvennt. Grófhakkið hneturnar og þurrristið á pönnu. Pískið saman sýrðan rjóma og rjóma. Blandið síðan öllu saman í skál og sáldrið smá súkkulaði yfir í lokin. Geymið í kæli þar til salatið er borið fram.

Uppskriftirnar sem ég deili með ykkur í dag voru úr lokaþættinum mínum af frumraun minni í sjónvarpi, Í eldhúsinu hennar Evu. Ég steig algjörlega út fyrir þægindarammann og er afskaplega ánægð með að hafa gripið tækifærið. Þetta var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt ferli. Ég naut mín við gerð þáttanna og hef vonandi veitt ykkur innblástur í eldhúsinu. 
 Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar og skilaboðin sem ég hef fengið frá ykkur í sambandi við þættina, það er ómetanlegt já, ómetanlegt að fá svo góðan stuðning frá  góðu fólki. 
Risajólaknús til ykkar allra. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

3 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *