Gróf rúnstykki með sólblómafræjum

Um helgar finnst mér tilvalið að baka brauðbollur á morgnana, fylla heimilið af dásamlegri baksturslykt. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að grófum brauðbollum með sólblómafræjum sem eru mjög einfaldar og ekki tímafrekar. Það er oft sem mig langar að baka brauð en stundum finnst mér brauð uppskriftir svolítið tímafrekar og þá skýst ég frekar út í bakarí og kaupi nokkur rúnstykki. Það er þó miklu skemmtilegra að baka sitt eigið brauð og þess vegna hvet ég ykkur til þess að prófa uppskriftina. Ég hef meira að segja sleppt að láta bollurnar hefast í klukkstund, lét þær eingöngu hefast í 15 mínútur á pappírsklæddu ofnplötunni. Það kom ekki niður á bragðinu – svo ef þið viljið svindla eins og ég geri stundum þá ætti það að vera í góðu lagi.
Nýbakaðar brauðbollur með miklu smjöri, osti og agúrku…Namm.. það slær enginn hendinni á móti því.
Brauðbollur með sólblómafræjum
ca. 16 – 18 bollur
 • 7 dl volg mjólk
 • 2 tsk þurrger
 • 1 tsk sykur
 • 1 tsk salt
 • 1 kg KORNAX heilhveiti
 • 2 msk ljós olía

 

Ofan á:
1 egg
Fræ að eigin vali
Aðferð:

 

 1. Hellið volgri
  mjólk í hrærivélaskálina, bætið þurrgeri og sykri saman við. Setjið viskastykki
  yfir skálina og leyfið gerinu að vakna í rólegheitum. Þetta ferli tekur um það
  bil fimm mínútur, um leið og það byrjar að freyða í skálinni er gerblandan
  tilbúin.
 2. Bætið þá saltinu,
  heilhveitinu og olíunni saman við og hnoðið í hrærivélinni í 8 – 10 mínútur.
  Auðvitað er hægt að hnoða með höndunum líka – ég kýs að nota hnoðarann fyrst ég
  á hann til (of löt til þess að hnoða sjálf, haha)
 3. Þegar deigið er
  orðið þétt og fínt takið það upp úr skálinni og hnoðið það smávegis með
  höndunum. Leggið þið aftur í hreina skál og leyfið því að hefast í um það bil
  klukkustund á heitum stað.
 4. Skiptið deiginu í
  litla bita og mótið bollur. Leggið á pappírsklædda ofnplötu, leyfið bollunum að
  hefast í tíu mínútur til viðbótar.
 5. Pískið eitt egg
  og penslið yfir. Sáldrið gjarnan fræjum yfir og bakið við 200°C í 12 – 15 mínútur,
  eða þar til bollurnar eru gullinbrúnar.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *