Glútenfríar piparkökur, þessar klassísku og góðu.

Piparkökur eru þær jólasmákökur sem ég tengi hvað mest við jólin. Lyktin af þeim er svo góð og jólaleg, Það er fastur liður hjá mér að baka gómsætar piparkökur fyrir jólin. Þessi uppskrift er að glútenfríum piparkökum en þið getið auðveldlega notað venjulegt hveiti ef þið viljið það frekar. Það er ágætis ráð að setja hveitið út í deigið smám saman, um leið og deigið er orðið slétt og þétt þá er það tilbúið. Það gæti verið að þið þurfið minna af venjulegu hveiti en þið prófið ykkur bara áfram. Þessar eru svakalega góðar og ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift og fáið svo fjölskyldu og vini til þess að skreyta kökurnar með ykkur.

Glútenfríar piparkökur

  • 150 g smjör, við
    stofuhita
  • 1 dl síróp
  • 2 dl sykur
  • 1 dl rjómi eða mjólk
  • 2 tsk. Kanill
  • 1 tsk. Negull
  • ½ tsk. Engifer
  • ¼ tsk. Hvítur pipar
  • 1 tsk. Vínsteinslyftiduft
  • 450 – 550 g fínt
    Fínax mjöl
Aðferð: Hitið smjör,
síróp og sykur í potti við vægan hita. Þegar sykurblandan fer að þykkna takið þið pottinn af hellunni og kælið í smá stund og bætið rjómanum út í. Hellið
blöndunni í stóra skál og sigtið þurrefnin út í, það er gott að geyma smá hveiti
sem þið bætið við smám saman en deigið er tilbúið þegar það er orðið slétt og
þétt. Því næst er plastfilma er sett yfir
skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir helst yfir nóttu.
Hnoðið
deigið smávegis og fletjið út með kökukefli. Það er alltaf gott að strá
svolítið af hveiti á borðið áður en þið fletjið deigið út, það kemur í veg
fyrir að deigið festist við borðið. Piparkökurnar eru mótaðar með
piparkökuformum. Bakið kökurnar við 175°C í um það bil 10 mínútur.
Kælið
kökurnar og skreytið gjarnan með glassúr. Ég sáldraði flórsykri yfir nokkrar kökur en ég ætla að skreyta restina af kökunum í desember með litlum frændum sem eru að koma heim frá Noregi. Það er miklu skemmtilegra að skreyta kökurnar í góðum félagsskap.

 

 

 

 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *