Ég átti frábæra helgi með fólkinu mínu, en helgin byrjaði á vinkonudekri á Hótel Grímsborgum sem var algjört æði og ég ætla að segja ykkur betur frá því í vikunni. Svo fórum við fjölskyldan á Akranes og skutluðumst síðan á Hvolsvöll. Það var svo gott að komast aðeins í sveitina, leika við Ingibjörgu Rósu og almennt njóta. Allavega á milli þess sem ég vann í lokaritgerðinni sem ég og hópurinn minn skiluðum af okkur í gær og á morgun verjum við ritgerðina og þá er komin smá skólapása. Ekki nema einn áfangi eftir og því sé ég glytta í sumarfrí í skólanum… sem verður kærkomið.Þetta var semsagt mjög góð helgi og ég vona að þið hafið öll notið hennar. Nú er hins vegar komin ný vika og tími til kominn að deila með ykkur einfaldri uppskrift sem tekur enga stund að búa til. Þessi uppskrift er að mínu mati eftirlæti allra og svo einföld að þið eigið ekki eftir að trúa því. Ég byrja á því að deila uppskriftinni að pestóinu sem er algjör snilld og hægt að borða með nánast öllu, sérstaklega gott í pastarétti eins og í þessa hér fyrir neðan. Ég sýndi einnig aðferðina á Instagram reikningnum mínum en þið finnið mig þar undir @evalaufeykjaran – sem og á Snapchat.
Gómsætt basilíkupestó með límónu
Einföld matreiðsla
Tími frá upphafi til enda : 25 mínútur
- Handfylli fersk basilíka
- Handfylli spínat
- 100 g ristaðar kasjúhnetur
- 50 g ferskur parmesan ostur
- Safinn úr hálfri límónu
- Salt og pipar, magn eftir smekk
- 1-2 dl ólífuolía, magn eftir smekk
Aðferð:
- Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Þið stjórnið þykktinni á pestónu með ólífuolíunni. Berið strax fram og njótið.
Kjúklingapasta með heimagerðu pestó
- 300 g penne heilhveiti pasta
- 2 kjúklingabringur
- 1 askja kirsuberjatómatar
- 1/2 kúrbítur
- 3 hvítlauksrif
- Ólífuolía
- Kjúklingakrydd
- Salt og pipar
- 1 poki litlar Mozzarella kúlur (eða ein stór)
Aðferð:
- Steikið kjúklingabringurnar á hvorri hlið í 2 mínútur, kryddið til með kjúklingakryddi, salti og pipar. Setjið bringurnar í eldfast mót, skerið niður kirsuberjatómata, kúrbít og hvítlauk og bætið í formið með bringunum. Eldið bringurnar og grænmetið í ofni við 180°C í 20 mínútur.
- Sjóðið pasta upp úr söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
- Útbúið pestó, uppskriftin er hér að ofan.
- Skerið kjúklingabringurnar í litla bita og blandið öllum hráefnum saman í skál.
- Í lokin skerið þið litlar mozzarella kúlur í tvennt og bætið við.
Berið strax fram og njótið vel.
Ingibjörg Rósa var alsæl með réttinn og hvetur að sjálfsögðu alla til þess að prófa.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.