Fylltar kjúklingbringur með dásamlegu pestó

Helgin er að skella á og þá er svo sannarlega tilvalið að gera vel við sig og sína. Ég hef lítið náð að blogga í vikunni því nú verr og miður en ég vona að þessi uppskrift bæti upp fyrir bloggleysið. Ég er sérlega hrifin af kjúkling og elda hann mjög oft eins og þið hafið örugglega tekið eftir. Fylltar kjúklingabringur eru í eftirlæti, þessi uppskrift sem ég deili með ykkur í dag er afar einföld og þægileg. Fullkomin föstudagsuppskrift ef svo má að orði komast. Ég smakkaði svo gott og ferskt pestó um daginn að ég ákvað að nota það í þennan rétt. Ég er mjög hrifin af pestó og þá sérstaklega ef það er mjög ferskt. 
Fylltar kjúklingabringur með dásamlegu pestó 
Uppskriftin er fyrir fjóra 
4 kjúklingabringur 
8 msk. hreinn rjómaostur
7 – 8 msk. pestó 
1 msk. fínt brauðrasp 
fersk steinselja, magn eftir smekk 
salt og nýmalaður pipar
ólífuolía 
kirsuberjatómatar 
Aðferð: 
Þerrið kjúklingabringurnar og skerið í þær vasa til að koma fyllingunni í. Blandið saman í skál rjómaostinum, pestóinu, svolítið af ferskri steinselju og kryddið til með salti og pipar. Setjið 1 – 2 msk af fyllingunni inn í hverja bringu. Til þess að fyrirbyggja að fyllingin myndi nú leka út þá lét ég nokkra tannstöngla til þess að halda fyllingunni inn í bringunni. Leggið bringurnar á eldfast mót, kryddið þær til með salti og pipar. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og setjið þá á eldfasta mótið. Sáldrið bæði brauðraspinu og ólífuolíunni yfir að lokum. Setjið bringurnar inn í ofn við 180°C í 25 – 30 mínútur. Þegar bringurnar eru komnar út úr ofninum þá er gott að saxa niður ferska steinselju og sáldra yfir áður en þið berið þær fram. Ég var ekki með sósu því bringurnar voru mjög safaríkar en þið getið auðvitað búið til létta og góða sósu ef þið viljið. Gott er að bera þennan rétt fram með hrísgrjónum eða sætum kartöflum. Já  og auðvitað fersku salati. 
Einfaldur, fljótlegur og gómsætur réttur sem ég mæli með að þið prófið. 
 Þetta er pestóið góða sem ég notaði, algjör dásemd sem ég mæli með. Pestóið fæst m.a. í Hagkaup. 
Ég vona að þið eigið ljúfa helgi framundan kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)