Ég ætlaði að vera löngu búin að smella inn færslu um Berlín. Við Haddi fórum þangað í maí yfir helgi og kolféllum fyrir borginni, ég elska borgir sem bjóða upp á magnaða sögu, frábæran mat og skemmtilegt umhverfi. Hótelið skiptir miklu máli að mínu mati og við gistum á Adlon hótelinu sem er frábærlega vel staðsett og algjört æði að dvelja þar, mæli mikið með því hóteli.
Það sem við gerum alltaf í borgarferðum er að hjóla um og skoða, það er ein besta leiðin til þess að skoða sig um að mínu mati, einnig er auðvitað snilld að reima á sig hlaupaskóna og skoðina borgina þannig en hjólið er líka frábært. Þá líður manni líka svolítið eins og maður eigi kökusneiðarnar betur skilið.
Ég er alltaf búin að skoða veitingahús mjög vel, fá ráð frá góðum vinum og nú nota ég Foursquare appið þegar ég ferðast eftir ábendingu frá vinkonu að það væri málið. Við dvöldum í Berlín í þrjá daga (tvær nætur) og fórum þess vegna tvisvar sinnum út að borða á kvöldin. Í fyrra skiptið borðuðum við á Grill Royal sem fær fullt hús stiga hjá mér og það er ráðlagt að panta borð með góðum fyrirvara þar. Seinna kvöldið völdum við lítinn sætan veitingastað sem heitir Entrecote, mjög góður og ótrúlega þægileg stemning. Þið verðið að panta ykkur súkkulaðiköku með blautri miðju í eftirrétt, algjört æði!
Við nutum þess að hjóla eða labba um, það er svo ótal margt að skoða í Berlín og ég hefði alveg verið til í nokkra daga í viðbót en það kallar bara á ferð þangað aftur einn daginn. Við vorum ekki með nein plön þannig lagað heldur skoðuðum bara það helsta, stoppuðum á kaffihúsum og bara já nutum þess að vera í fríi. Okkur var bent á mjög skemmtilegan roof top bar sem heitir Klunkerkranich og við eyddum dágóðum tíma þar, enda var veðrið ótrúlega gott og frekar skemmtilegur staður. Okkur var líka bent á mjög spennandi sundlaug og lítið strandarsvæði rétt við sjóinn, það svæði heitir Badeschiff. Við vorum komin fyrir utan í röð en það hitti þannig á að það var eitthvað festival í gangi og allt uppselt, við vorum mögulega búin að hjóla í gegnum alla borgina en ég meina!
Berlín er afar skemmtileg borg sem ég mæli með, sérstaklega fyrir foreldrafrí!
Nú langar mig strax í helgarferð með mínum manni eftir að hafa skoðað þessar myndir í kvöld… en hvert? Það er ágæt spurning!
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir