Fiskibollurnar hennar ömmu Stínu

Öll eigum við minningu tengda mat,
ég á margar mjög góðar minningar úr eldhúsinu hennar ömmu. Eitt af því sem mér
fannst best að fá hjá henni voru fiskibollurnar hennar. Ég sé ömmu alltaf fyrir
mér í eldhúsinu sínu í Engihjallanum með svuntu á milljón að gera bollur handa
stórfjölskyldunni. Mamma gerði þessar bollur reyndar líka mjög oft heima, þá
þótti mér mesta sportið að fylgjast með þegar hún hakkaði fiskflökin.

 Ég hef smakkað allskonar bollur en það er engin uppskrift sem
kemst með tærnar þar sem þessi hefur hælana. Lyktin sem umvefur heimilið er
ótrúlega góð og bollurnar eru svo ljúffengar. Þær eru silkimjúkar og bragðast
æðislega vel með soðsósunni góðu.

Fiskibollurnar hennar ömmu

 • 800 fiskhakk
 • 1 meðalstór laukur, smátt saxaður
 • 1 msk. ARomat (jájá, ef amma notar aromat þá nota ég aromat í þessar bollur)
 • Salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk
 • hveiti
 • 1 egg
 • 3 msk. smjör, brætt
 • 1/2 – 1 dl. mjólk
Aðferð:
 1. Blandið fiskhakki og smátt söxuðum lauk saman í skál.
 2. Þjappið deiginu jafnt niður í skálina og skiptið í fjóra hluta með því að skera létt i deigið.
 3. Takið einn hluta upp úr skálinni og leggið til hliðar.
 4. Fyllið það hólf með hveiti ( ca. 2 dl) og kryddið til með aromat, salti og pipar.
 5. Því næst fer egg og smjör út í og blandið öllu mjög vel saman, bætið mjólkinni smám saman við eða þar til þið eruð ánægð með áferðina á farsinu.
 6. Hitið smjör á pönnu og mótið bollurnar með tveimur skeiðum, steikið bollurnar á öllum hliðum í 1 -2 mínútur
 7. Þegar bollurnar eru tilbúnar þá leggið þið þær í rúmgóðan pott, hellið sjóðandi vatni yfir og leyfið bollunum að malla við vægan hita í 20 – 30 mínútur.
 8. Takið bollurnar upp úr soðinu, þykkið soðið með smjörbollu eða maizena. Leyfið sósunni að malla í smá stund og smakkið til með salti, pipar og fisktening ef ykkur finnst þurfa meira bragð.
 9. Berið bollurnar fram með soðnum kartöflum, sósu og sultu. (Og smjöri).

 

 

Fyllið hólfið með hveiti og kryddinu. Því næst bætið þið fiskpartinum sem þið tókuð upp úr aftur ofan í skálina og blandið öllu mjög vel saman.

 

Ég vil hafa áferðina svona, en þið prófið ykkur áfram og finnið út hvernig þið viljið hafa farsið.

 

 

Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

1 comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *