Egg Benedict með heimagerðri Hollandaise sósu

 Dögurður eða brunch er fullkomin máltíð, morgunmatur og hádegismatur í eina sæng. Að byrja daginn á ljúfengum mat, sitja og spjalla fram eftir degi er uppskrift að góðum degi. Einn af mínum eftirlætis brunch réttum er Egg Benedict og ég ákvað að bjóða vinkonu minni upp á þennan  rétt þegar hún kom í brunch til mín í dag. Þetta var í fyrsta sinn sem ég gerði þennan rétt og í fyrsta sinn sem ég prófaði að gera Hollandaise sósu. Rétturinn heppnaðist sem betur fer mjög vel og sátum við Dísa mjög lengi við matarborðið og nutum þess að borða og spjalla í rólegheitum. Í eftirrétt voru að sjálfsögðu pönnukökur með jarðaberjum og sírópi, það er ekkert brunchboð nema pönnukökur séu í boði.
 Egg Benedict
Egg Benedict er amerískur réttur samanstendur af enskri múffu, beikoni, hleyptu eggi og Hollandaise sósu. Það var ekki eins flókið að útbúa þennan gómsæta rétt eins og ég var búin að búa mig undir, ég var búin að horfa á mörg Youtube kennslumyndbönd áður en ég tók af skarið, aðal áhyggjuefnið hjá mér var sósan, ó dásamlega Hollandaise sósan. Ég prófaði aðferð sem er mjög einföld og fljótleg og hentaði hún mjög vel og sósan var virkilega góð og áferðin á henni eins og hún á að vera. Ég notaði töfrasprotann og það tók mig tvær til þrjár mínútur að útbúa sósuna, mjög einfalt. Þetta er mín útgáfa að þessum rétt og breytti ég upprunalegu uppskriftinni en eggin og sósan eru vitaskuld í aðalhlutverki
 • 4 egg
 • 2l vatn
 • 1 tsk. edik (má sleppa)
 • 6 sneiðar af góðri hráskinku
 • Tvær þykkar sneiðar af grófu brauði (ég notaði gróft súrdeigsbrauð)
 • Spínat steikt upp úr smjöri, magn eftir smekk
 • 3 – 4 msk. Hollandaise sósa (sjá uppskrift fyrir neðan)
 • Salt og nýmalaður pipar
 • Smátt söxuð steinselja
Aðferð:
 1. Það er best að byrja á sósunni og þið finnið uppskriftina hér fyrir neðan. Næsta skref er að skera súrdeigsbrauðið í þykkar sneiðar, setjið brauðsneiðarnar á pappírsklædda ofnskúffu og sáldrið smávegis af olíu yfir og hitið í ofni í 5 – 7 mínútur við 180°C.
 2. Hleypt egg eru linsoðin án skurnar. Það er mikilvægt að eggin séu fersk. Setjið vatn í pott, bætið edikinu út í vatnið og látið suðuna koma upp, lækkið þá undir pottinum en látið hann samt halda vægri suðu.
 3. Brjótið egg í bolla og hellið egginu mjög varlega út í vatnið. (ég mæli með að þið skoðið kennslumyndbönd á Youtube, þá sjáið þið aðferðina við að setja eggið út í pottinn). Sjóðið eggin í þrjár mínútur, þá ætti eggjahvítan að vera umvafin eggjarauðunni og þegar skorið er í eggið ætti rauðan að leka fallega út.
 4. Takið eggið varlega upp úr pottinum, mér finnst best að nota fiskispaða og setjið á eldhúspappír til þess að þerra.
 5. Snöggsteikið spínat upp úr smjöri og steikið hráskinkuna í smá stund á pönnu eða þar til hún er orðin stökk og fín.
 6. Setjið brauðsneiðarnar á diska á raðið í eftirfarandi röð, brauð, hráskinka, spínat, egg, tvær matskeiðar af sósu, salt, pipar og smátt söxuð steinselja.
Þetta er vægast sagt ljúfengur réttur sem allir ættu að prófa.
Hollandaise sósa
 • 2 eggjarauður
 • 1 tsk kalt vatn
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 200 g brætt smjör
 • salt og nýmalaður pipar
Aðferð:
 1. Setjið eggjarauður, vatn og sítrónusafa í ílat sem töfrasprotinn kemst ofan í. Það verður að vera svipað og sést á þessu myndbandi sem ég fylgdi. (Fool proof Hollandaise, haha).
 2. Bræðið smjörið og passið að það sé enn heitt þegar þið hellið því saman við eggjarauðurnar.
 3. Þeytið eggjarauður, vatn og sítrónusafa með töfrasprotanum í eina til tvær mínútur eða þar til það er komin ljós og létt froða sem hefur margfaldast, hellið smjörinu í mjórri bunu saman við sósuna þar til hún er tilbúin.
 4. Ef sósan verður of þykk þá má þeyta svolitlu volg uvatni saman við. Að lokum er sósan smökkuð til með salti, pipar og svolitlum sítrónusafa.

 

 

Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *