Desember er genginn í garð og lætur heldur betur til sín taka. Veðrið er ekki upp á sitt besta eins og þið hafið eflaust tekið eftir og ekkert gott að vera að þvælast úti við ef erindið er ekki brýnt. Ég legg til að þið fáið ykkur þennan ómótstæðilega súkkulaðibolla, komið ykkur vel fyrir með teppi og njótið. Það er líka í fínasta lagi að setja eina jólamynd í tækið og finna jólaandann hellast yfir ykkur. Ég sit hér með hópnum mínum að læra undir próf, við erum búin að kveikja á kerti og koma okkur vel fyrir. Ætlum ekki að færa okkur um set í allan dag og ég vona að þið eigið góðan dag þrátt fyrir leiðindaveður.
Piparmyntusúkkulaði
1 líter mjólk
175 g suðusúkkulaði
1 stk pipp súkkulaði (40 g)
2 dl vatn
smá salt
Hitið vatn og látið súkkulaðið bráðna í því, passið ykkur á því að sjóða ekki vatnið. Hrærið vel í á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðið þá bætið þið mjólkinni út í og hitið þar til fer að sjóða. Að lokum þá bætið þið smá salti út í, leyfið þessu að malla í smá stund við vægan hita.
Mér finnst best að þeyta rjóma og setja væna skeið af rjóma í minn bolla, en það er líka dásamlegt að setja vanilluís út í.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.