Í gærkvöldi ákvað ég að skella í einfaldasta brauð veraldar, já ég er að segja ykkur það satt. Ég átti hveiti, þurrger, salt og vatn… og meira var það ekki. Það eina sem þessi uppskrift krefst er pínu þolinmæði, brauðið þarf að hefast í 12 – 24 klst en ef þið skellið í deigið að kvöldi þá er það tilbúið um morguninn og eina sem þarf þá að gera er að skella því inn í ofn og eftir 45 mínútur er fína og góða brauðið tilbúið. (sem lítur út fyrir að hafa verið rosa mikil vinna) Brauðið er auðvitað best nýbakað og ákvað ég að nota það í bruschettu með tómötum og Mozzarella. Algjört lostæti og svo einfalt, ég elska allt sem er einfalt…