Ég var búin að þrá gott taco og í gær eldaði ég þessa sjúklega góðu og stökku kjúklingataco sem ég get hreinlega ekki hætt að hugsa um, samt borðaði ég þetta fyrir örfáum klukkutímum! Ég þori að veðja að þið eigið eftir að elska þennan rétt jafn mikið og ég, þið verðið hreinlega að prófa hann sem allra fyrst. Ég er að hugsa um að hafa þetta aftur í kvöld, jájá hér dæmir enginn.
Stökkt og bragðmikið kjúklingatacos
- Kjúklingakjöt (magnið fer eftir því smekk)
- Nando’s Peri Peri sósa (hot)
- Tortillavefjur
- Olía til steikingar
- Salsa
- Lárperumauk
- Ostur
- Sýrður rjómi
- Kóríander
- Sítróna eða límóna
Salsa
- 2 tómatar
- 1 laukur
- Handfylli kóríander
- Salt á hnífsoddi
- Pipar
- Ólífuolía
- Skvetta af sítrónusafa
Aðferð:
- Skerið tómata, lauk og saxið kóríander mjög smátt.
- Blandið öllum hráefnum saman í skál, kryddið til með salti og pipar.
- Hellið smávegis af ólífuolíu og kreistið safann úr sítrónu yfir, blandið vel saman og geymið í kæli í 10 – 15 mínútur.
Lárperumauk
- 2 lárperur
- ½ hvítlauksrif
- Handfylli kóríander
- Skvetta úr hálfri sítrónu eða límónu
- Salt
Aðferð:
- Maukið lárperurnar, rífið niður hálft hvítlauksrif og blandið saman við.
- Saxið kóríander og bætið honum við, kreistið sítrónusafa yfir og kryddið til með vel af salti. (þið getið líka notað matvinnsluvél eða töfrasprota ef þið viljið mjög fína áferð)
Kjúklingataco!
Aðferð:
- Hitið vel af olíu á pönnu, mikilvægt að nota olíu sem þolir háan hita.
- Þegar olían er heit steikið þið tortilla vefjurnar, eina í einu þar til þær eru gullinbrúnar og stökkar. Mótið vefjurnar þannig hún sé eins og taco skel, setjið á eldhúspappír og þerrið aðeins.
- Rífið niður kjúklingakjöt (ég notaði afgang af heilum kjúkling) og hellið Peri Peri sósu yfir, smekksatriði hversu mikla sósu þið notið. Kreistið einnig sítrónusafa yfir kjúklinginn.
- Bræðið ost í potti eða inn í ofni, ég notaði bara venjulegan ost.
- Fyllið taco skeljarnar af ljúffengu kjúklingakjöti, bræddum osti, æðislega fersku salsa, lárperumauki og setjið smávegis af sýrðum rjóma í lokin og sáldrið enn meiri kóríander yfir.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.