Ilmurinn af nýbökuðu brauði er dásamlegur. Þegar ég er í morgunstuði, þá baka ég eitthvað gott og nýt þess í botn að fá mér góðan morgunmat í rólegheitum á meðan Ingibjörg Rósa tekur lúrinn sinn. Ilmurinn af nýbökuðu brauði og kaffi er ofsalega góður og hefur róandi áhrif. Ég baka oft brauð hér heima. Ég hef verulegan áhuga á brauði og mér finnst lærdómsríkt að prófa mig áfram. Ég verð líka svo montin þegar vel tekst til. Það kemur fyrir að baksturinn gangi bara ekki neitt – þá stekk ég út í bakarí. Æfingin skapar meistarann og ég held áfram að æfa mig. Öðruvísi lærum við ekki neitt. Þessar bollur eru af einföldustu gerð, það er lygilega fljótlegt að útbúa þær. Brauð eru alltaf langbest samdægurs og þess vegna baka ég bara minni skammta ef þetta er bara fyrir okkur Hadda. Það er engu að síður ekkert mál að tvöfalda þessa uppskriftina.
- 3 dl volgt vatn
- 2 tsk. þurrger
- 1 msk. fljótandi hunang
- 275 g Kornax hveiti
- 50 g Kornax heilhveiti
- 50 g ýmis korn eða fræ að eigin vali (ég notaði hörfræ í þetta sinn)
Aðferð:
- Leysið gerið upp í volgu vatni. (látið standa í þrjár mínútur)
- Bætið hunanginu út í og blandið saman.
- Setjið hveiti, heilhveiti og fræ í skál og hrærið.
- Hnoðið allt hráefni saman í skál.
- Breiðið klút yfir skálina og látið deigið lyfta sér að minnsta kosti í hálftíma.
- Mótið bollur og raðið þeim á pappírsklædda ofnplötu, látið bollurnar lyfta sér í hálftíma. Ég fæ um það bil 6 – 8 bollur úr einfaldri uppskrift.
- Pískið eitt egg og penslið bollurnar með eggjablöndunni, sáldrið gjarnan fræjum yfir.
- Bakið við 200°C í 30 – 35 mínútur.
Berið strax fram og njótið.