.. Klukkan er tólf á hádegi og ég er enn í náttsloppnum. Við Haddi erum á Hvolsvelli að hafa það huggulegt. Ég sit hér við stofuborðið dúðuð í fína náttsloppnum, með kveikt á kertum og með morgunkaffið sem ég er búin að vera að sötra á í rúmar tvær klukkustundir. Ég er ekki að drekka kalt kaffi heldur drekk ég smá og smá og bæti síðan heitu við.. hurðin út að svölum er opin og ferska loftið streymir inn. Pínu kalt en samt ekki, útsýnið og þögnin hérna er engu lík. Hér líður mér vel, hér er í lagi að dúllast frameftir öllu. 🙂 Haddi svefnpurka sefur líka enn og því er ansi mikil ró.
Eftir smá stund þá ætla ég að fara í göngutúr, kíkja á grafreitinn hjá ömmu og afa sem bjuggu hér á Hvolsvelli.
Eitt finnst mér þó yndislegt kirkjan hér á Hvolsvelli er dásamleg. Lítil og falleg. Það er lykill að henni svo maður kemst alltaf inn. Ég veit ekki neitt betra en að sitja þar inni í kyrrðinni.
Eftir göngutúrinn hef ég hugsað mér að kíkja í sund og á kaffihúsið og fá mér einn góðan kaffibolla – já ég er kaffifrík. Cappucino og gömul slúðurblöð á kósí kaffihúsi.
Ég get verið ansi gömul í mér stundum – en það er í lagi hér á Hvolsvelli.
Hér nýt ég mín.
Mynd af fallegu kirkjunni sem ég tók í september í fyrra. Þá í einum góðum göngutúr 🙂