Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að eplaböku sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Bakan er afskaplega einföld og fljótleg sem er alltaf plús. Ég baka þessa mjög oft, bæði þegar ég á von á góðum gestum og svo bara þegar kökulöngunin kemur upp. (sem gerist ósjaldan). Ég hvet ykkur til þess að prófa þessa uppskrift. Ég þori að lofa ykkur því að þið eigið eftir að baka þessa aftur og aftur.
Besta eplabakan með salthnetum og ljúffengri karamellusósu.
- 5-6 stór græn epli
- 2 msk. sykur
- 2 – 3 tsk. kanill
- 1 tsk. vanillusykur eða vanilludropar
- 50 – 60 g. súkkulaðispænir frá Nóa Síríus
- 80 g. hveiti
- 80 g. sykur
- 80 g. smjör
- 50 g. haframjöl
- salthnetur, magn eftir smekk
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Flysjið eplin, fjarlægið kjarna og stilka. Skerið eplin í litla bita og dreifið eplabitunum í eldfast mót. Blandið sykri, vanillusykri og kanil saman við eplin. Sáldrið súkkulaðispænum yfir eplin. Næsta skref er að útbúa deigið sem fer ofan á eplin. Blandið hveiti, sykri, smjöri og haframjöli saman í skál og blandið saman með höndunum. Dreifið deiginu yfir eplin og sáldrið salthnetum yfir í lokin. Setjið bökuna inn í ofn í 35 – 40 mínútur.
Á meðan að bakan er í ofninum þá er upplagt að útbúa ljúffenga karamellusósu.
- 1 poki Góa kúlur
- 2 – 3 dl. rjómi
Aðferð: Bræðið kúlurnar í rjómanum við vægan hita í potti.
Berið eplabökuna fram með ís og karamellusósunni.
Ég er virkilega ánægð með þessa tvennu, rúsínur og salthnetur eru algjör dásemd.
Ég vona að þið njótið vel.
xxx
Eva Laufey K.Hermannsdóttir