Mánudagsfiskurinn í þessari viku var risarækjutacos með bræddum osti, stökkum tortilla vefjum og fersku salsa. Ég ætlaði reyndar bara að kaupa fisk til þess að steikja en brjálæðislega girnilegar tortilla vefjur fönguðu hug minn en þær voru ólíkar þeim sem ég kaupi venjulega og ég gat ekki annað en gripið þær með mér heim. Þetta kallaði einfaldlega á gott tacos kvöld! Tortilla vefjurnar gegna lykilhlutverki í þessum rétti, ég segi ykkur það satt. Bragðið af þeim gerir matinn svo spennandi og hann verður líkari ekta mexíkóskum mat fyrir vikið, ég verð eiginlega að mæla með að þið kaupið þessar tortilla vefjur og þá vitið þið hvað ég er að tala um.
Bragðmikið rækjutacos með fersku salsa
Fyrir fjóra
- 2 pakkar risa- eða tígrisrækja (um það bil 660 g)
- Salt og pipar
- Peri – Peri sósa
- Safi úr hálfri límónu
- 2 msk smátt saxaður kóríander
- Ólífuolía
- Tortilla vefjur
- Rifinn ostur
Aðferð:
- Skolið rækjurnar vel og þerrið.
- Setjið rækjurnar í skál og kryddið til með salti og pipar, hellið vel af Peri Peri sósunni yfir og kreistið safann úr hálfri límónu. Saxið niður kóríander og bætið honum saman við.
- Leyfið rækjunum að liggja í marineringunni í svolitla stund, því lengur því bragðmeiri verða rækjurnar.
- Hitið olíu á pönnu og steikið rækjurnar þar til þær verða bleikar, þá eru þær tilbúnar.
- Þegar rækjurnar eru tilbúnar þá er gott að þrífa pönnuna, skella henni aftur á helluna og hita olíu. Því næst fara tortilla vefjurnar á pönnuna og gott að steikja þær í um það bil 30 sek á hvorri hlið – bætið ostinum á vefjurnar þegar þið eruð búin að snúa þeim einu sinni. Þegar osturinn er bráðnaður eru þær tilbúnar.
Berið vefjurnar fram með fersku káli, salsa, rækjunum og jafnvel sýrðum rjóma.
Ferskt salsa
- 1 laukur
- 12-14 kirsuberjatómatar eða tveir stórir
- 2 lárperur
- Handfylli af fersku kóríander
- Safinn úr hálfri límónu
- Salt og pipar
- Góð olífuolía
Aðferð:
- Skerið hráefnin mjög smátt og blandið saman í skál, kryddið til með salti og pipar. Kreistið safann úr hálfri límónu yfir og hellið svolítið af ólífuolíu yfir eða um það bil matskeið. Geymið í kæli áður en þið berið fram.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.