Tryllt Snickerskaka

Eftir að ég var búin að setja inn uppskrift að æðislegri rjómaostabrownies í morgun þá kom yfir mig löngun í súkkulaði- og karamelluköku. Ég skaust út í búð og keypti þau hráefni sem mig vantaði,   Snickers kaka skyldi það nú vera. Ég elska og þá meina ég elska Snickers súkkulaði, hvað þá Snickers köku? Mamma mía! Ég setti inn myndband að aðferðinni á Instagram og á Facebook síðu bloggsins og aldrei áður hef ég fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift. Ég varð hreinlega að setja hana inn strax þrátt fyrir að ég hafi fyrr í dag sett inn uppskrift að brownies. Við fáum ekki nóg af súkkulaði. Kakan er afar einföld og fljótleg, þið hafið þess vegna nægan tíma til þess að skjótast út í búð og skella í þessa fyrir eftirrétt kvöldsins.

Snickers brownies

Brownies uppskrift:
 • 150 g smjör
 • 250 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði
 • 200 g sykur
 • 2 stór egg
 • 100 g KORNAX hveiti
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 msk kakó
Karamellufylling
 • 1 krukka Dulce de leche, karamellusósa
 • 5 góðar matskeiðar af hnetusmjöri
 • 1 dós sykurpúðakrem, sjá mynd hér að neðan
 • 100 g ristaðar kasjúhnetur

Súkkulaðikrem:

 • 250 g mjólkursúkkulaði

 

Aðferð: 
 • Hitið ofninn í 170°C (blástur).
 • Bræðið smjör við vægan hita, saxið súkkulaðið og bætið því við smjörið og leyfið því að bráðna í smjörinu. Takið pottinn af hellunni og leyfið súkkulaðiblöndunni að kólna.
 • Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu, hveiti og kakó saman við og hrærið þar til deigið er silkimjúkt. Í lokin hellið þið súkkulaðiblöndunni við og blandið vel saman.
 • Hellið deiginu í pappírsklætt form (20×20) og bakið við 170°C í 30 mínútur. Það er mjög mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg í forminu.
 • Setjið öll hráefnin sem eiga að fara í karamellufyllinguna í pott við vægan hita og hrærið mjög vel þar til fyllingin hefur blandast vel saman.
 • Hellið karamellufyllingunni ofan á súkkulaðiköku og kælið.
 • Bræðið mjólkursúkkulaði yfir vatnsbaði og hellið yfir kökuna í lokin. Kælið og þegar súkkulaðið er orðið hart þá er kakan tilbúin, skerið hana í bita og berið strax fram.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessa köku ættu allir að prófa. Njótið vel <3
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum 🙂