Í kvöld er komið að úrslitakeppni Eurovision og veljum við okkar framlag sem keppir síðan í Stokkhólmi í vor. Er ég spennt? Já. Enda forfallin Eurovision aðdáandi og auðvitað ætlum við að horfa á keppnina í kvöld, þá er tilvalið að skella í eitthvað gott og borða á meðan keppninni stendur. Ég ætla að gera þennan stökka og góða kjúkling í Doritos hjúp, ég hef áður gert svipaða uppskrift og notað Kornflex en svei mér þá ef þessi er ekki betri – kjúklingurinn er mikið stökkari og þetta er algjört sælgæti. Laugardagsmatur þegar maður vill fá sér eitthvað svolítið gott. Uppskriftin er líka afar einföld og það þarf ekki að kaupa mörg hráefni, semsagt einfalt og þægilegt.
Njótið vel og eigið gott laugardagskvöld framundan.
Doritos kjúklingur
- 700 g kjúklingakjöt, ég notaði lundir
- 6 msk sýrður rjómi
- 1 tsk papriku krydd
- 1 tsk mexíkósk kryddblanda
- salt og pipar
- 1 poki appelsínugulur Doritos
- ólífuolía
Sósa:
- 1 dós sýrður rjómi
- 5 – 6 msk salsa sósa
Aðferð:
- Skerið kjúklingabitana í jafn stóra bita.
- Blandið saman í skál sýrða rjómanum, paprikukryddi, mexíkóskri kryddblöndu, salti og pipar og hrærið vel saman. Þekjið kjúklingabitana með sósunni og geymið í kæli í 30 mínútur.
- Myljið snakkið í matvinnsluvél en ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá getið þið barið á snakkið með t.d. kökukefli.
- Veltið kjúklingabitunum upp úr snakkinu og leggið síðan á pappírsklædda ofnplötu. Sáldrið smávegis af ólífuolíu yfir og eldið við 180°C í 20 – 25 mínútur.
- Berið fram með léttri salsasósu og fersku salati.
Sósan aðferð:
- Blandið sýrða rjómanum og salsasósu saman í skál og berið fram með kjúklingabitunum.
Litlir puttar að læðast inn á myndina á meðan mamman tekur myndir. haha 🙂
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.