Ljúffengar súkkulaðibitakökur með pekanhnetum

Gleðilega aðra aðventu kæru lesendur. Mikið vona ég að helgin ykkar hafi verið uppfull af notalegheitum með fjölskyldu og vinum. Ég hef lítið sinnt blogginu að undanförnu en ég er búin að vera í prófum og lítill tími gefist fyrir bakstur og eldamennsku. En nú verð ég dugleg að setja inn jólalegar uppskriftir fyrir ykkur.
Í gær bakaði ég til dæmis þessar ofur góðu smákökur með súkkulaði- og pekanhnetum, ég er svakalega mikið fyrir hnetur en þið getið auðvitað skipt þeim út fyrir meira súkkulaði ef þið eruð ekki jafn hrifin af hnetum og ég.  Uppskriftin er frekar stór og notaði ég einungis 1/4 af deiginu, ég frysti rest og get þá alltaf skorið það deig í bita og skellt inn í ofn þegar kökulöngunin kemur upp. Kökurnar hjá mér eru frekar stórar en það er bara smekksatriði. Ég mæli með að þið prófið þessar og vonandi smakkast þær vel.

Smákökur með súkkulaði- og pekanhnetum

 

  •  230 g smjör
  • 180 g púðursykur
  • 180 g ljós púðursykur
  • 2 egg
  • 320 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 100 g pekanhnetur
  • 300 g súkkulaði, ég notaði bæði suðusúkkulaði og dökka súkkulaðihnappa
  • 1 tsk vanilludropar
  • 70 g brætt suðusúkkulaði til þess að skreyta kökurnar
Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt í sér, bætið eggjum saman við. Einu í einu.
  3. Bætið þurrefnum saman við eggjablönduna og hrærið, skafið einu sinni til tvisvar sinnum meðfram hliðum á skálinni og haldið áfram að hræra.
  4. Saxið niður pekanhnetur og súkkulaði, setjið saman við ásamt vanillu og blandið vel saman með sleikju.
  5. Mótið kúlur með teskeiðum eða matskeiðum, setjið kökurnar á pappírsklædda ofnplötu og bakið við 180°C í 10 – 12 mínútur
  6. Bræðið súkkulaði og sáldrið yfir kökurnar í lokin.
Njótið strax og þá helst með ísköldu mjólkurglasi.

 

 

 

 

Upplagt að pakka deiginu inn í plastfilmu og geyma í frysti ef þið viljið ekki baka allt í einu.

 

 

 

 

 

 

 

Aðventuknús frá mér til ykkar.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *