Lambarifjur í trufflumarineringu og nautalund með piparostasósu

Það er ekki seinna vænna en að draga grillið fram í sumarblíðunni.. *hóst*. Við fengum þó nokkra sumardaga og ég var sannfærð um góða veðrið væri komið til að vera en ég gleymdi því í smá stund að við búum vissulega á Íslandi, haha. Eeeen, ég dreif mig að grilla þegar veðrið var gott og það var svo ótrúlega ánægjulegt að ég verð að deila því með ykkur. Ég keypti besta lambakjöt sem ég hef smakkað í langan tíma í Hagkaup, nánar tiltekið í Kringlunni. Lambarifjur í einskonar trufflumarineringu sem ég get ekki hætt að hugsa um og ég mun svo sannarlega kaupa það kjöt aftur um leið og sólin lætur sjá sig á ný.

Ég bauð fjölskyldunni í grill og var með lambarifjur og nautalund, það eru flestir mun hrifnari af nauti í minni fjölskyldu en lambið var vinsælla í þessu boði og kláraðist fljótt og örugglega. Ég verð þess vegna að mæla með þessum lambarifjum.. hvað er ég búin að segja lamb oft í þessum stutta texta?!?.

Ójæja, hér koma myndir og tillögur að grillmat!

  • Nautalund
  • Salt og pipar
  • Góð ólífuolía

Aðferð:

  1. Snyrtið lundina og skerið í jafn stóra bita, berjið aðeins í hvern bita með buffhamri.
  2. Kryddið til með salti og pipar.
  3. Sáldrið ólífuolíu yfir og grillið eða steikið á pönnu og klárið að elda í ofni.
  4. Við grillum lundina í 3 – 4 mínútur á hvorri hlið.
  5. Ef ég elda hana inni, þá steiki ég hana á öllum hliðum á pönnu og klára að elda í ofni við 220°C í 12 mínútur.

Við grilluðum lambarifjurnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið, ég man ekki nákvæmlega hversu lengi en bara þegar þær eru orðnar frekar dökkar eins og þið sjáið á mynd hér að neðan að þá eru þær tilbúnar.

Gummi bróðir minn kom með þetta gómsæta kartöflusalat – ég þarf að fá uppskrift og deila henni með ykkur. Þvílíkt gott!

Aspas með hráskinku og parmesan

  • Ferskur aspas
  • Hráskinka
  • Parmesan
  • Góð ólífuolía

Aðferð:

  1. Sjóðið aspas í söltu vatni í þrjár mínútur.
  2. Þerrið vel og setjið hann í eldfast mót, raðið hráskinku yfir og sáldrið smá ólífuolíu yfir í lokin. Eldið í ofni þar til hráskinkan er orðin stökk. (við 180°C)
  3. Rífið niður parmesan og nóg af honum áður en þið berið réttinn fram.

Piparostasósa

  • 1 piparostur
  • 500 ml rjómi
  • 1 nautateningur

Aðferð:

  1. Rífið niður piparost (með því er fljótlegra að bræða ostinn)
  2. Setjið ost, rjóma og tening í pott. Hrærið vel saman og passið að hafa hitann ekki of háan.
  3. Sósan er tilbúin þegar osturinn er bráðnaður og sósan silkimjúk.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *