Ég hlakka mikið til að fylgjast með úrslitakvöldinu í Eurovision í kvöld. Ég held svakalega mikið upp á Eurovision og mér finnst alltaf jafn gaman að horfa. Undanfarin ár þá hef ég haldið Eurovision teiti og boðið vinum mínum. Eurovision er ekki allra en það geta nú flestir verið sammála um að það er alltaf gaman að hittast, blanda góða drykki og horfa saman á keppnina.
Í kvöld kemur í ljós hvaða lag við sendum út í lokakeppnina. Það er því vel við hæfi að bjóða fólkinu ykkar heim í smá teiti. Nú þegar sólin er farin að skína er enn skemmtilegra að bjóða upp á góða drykki. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að uppáhalds kokteilnum mínum, það kannast sennilega flestir við þennan drykk. Jarðarberja daiquiri er ferskur og sérlega bragðgóður kokteill, hann er mjög einfaldur sem er mikill kostur. Það er ekki nauðsynlegt að hafa áfengi í þessum drykk, hann er jafn góður án þess.
Þegar að ég var að vinna í bókinni minni þá fannst mér nauðsynlegt að hafa nokkra drykki með, það skapar oft svo skemmtilega stemningu í boðum að bera fram fallega og frískandi drykki (fordrykki).
Jarðarberja daiquiri
fjögur glös
- 1 poki frosin jarðarber (500 g)
- handfylli fersk mynta
- 4 tsk flórsykur
- safi úr ½ sítrónu
- 12-15 cl romm (Má auðvitað sleppa. Mér finnst líka gott að setja kókosvatn í staðinn)
- Það er líka gott að setja smávegis af sprite saman við, í lokin.
- fersk jarðarber til skrauts
Aðferð:
Setjið allt saman í blandara í nokkrar mínútur, hellið í falleg glös
og skreytið með ferskum berjum. Berið strax fram og njótið.
Ég vona að þið eigið góða helgi kæru lesendur.
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir