Æðislegar súkkulaði- og lakkrísbollakökur.

 

 

Í gærkvöldi var mér boðið í ævintýralega lakkrísveislu á Kolabrautinni. Réttirnir voru fimm talsins og innihéldu allir lakkrís frá heimsþekkta fyrirtækinu Lakrids By Johan Bülow. Eftir þessa veislu og gott spjall við Johan er ég enn hrifnari af lakkrísnum hans og ákvað strax í morgun að hefja þennan sunnudaginn á súkkulaðibakstri með góðum lakkrís.
 Það tekur enga stund að baka kökurnar og lakkrísinn setur punktinn yfir i-ið en súkkulaði og lakkrís fara mjög vel saman, vægt til orða tekið. Nú ætla ég hins vegar að hætta þessu blaðri og deila uppskriftinn með ykkur, ég mæli með að þið prófið hana… strax í dag 🙂

Súkkulaði- og lakkrísbollakökur

Súkkulaðideig:
 • 3 bollar Kornax hveiti (Amerísk mæling, 1 bolli = 2,4 dl)
 • 2 bollar sykur
 • 2 bollar AB mjólk
 • 1 bolli ljós olía
 • 5 msk kakó
 • 2 tsk matarsódi
 • 2 tsk lyftiduft
 • 4 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 150 g saxað suðusúkkulaði
 • 1 tsk lakkrísduft frá Johan Bülow
Aðferð:
 1. Stillið ofninn í 180°C. (blástur)
 2. Blandið öllum hráefnum saman í hrærivél og hrærið í nokkrar mínútur þar til deigið verður slétt og fínt.
 3. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og inn í ofn við 180°C í 15 – 18 mínútur.
 4. Kælið kökurnar mjög vel áður en þið setjið á þær krem.
Himneskt súkkulaðikrem
 • 200 g smjör
 • 500 g flórsykur
 • 1 msk rjómi (eða mjólk)
 • 150 g brætt suðusúkkulaði
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk kakó
 • 1 tsk lakkrísduft frá Johan Bülow
 • 1 egg (má sleppa en mér finnst kremið betra með egginu)
Aðferð:
 1. Þeytið saman smjör og flórsykur þar til blandan verður létt og ljós, það er mikilvægt að smjörið sé við stofuhita.
 2. Bætið rjómanum og súkkulaðinu saman við ásamt kakó og vanillu. Ég setti eitt egg út í kremið til þess að gera það enn betra og mýkra, þess þarf ekki en það er betra.
 3. Setjið lakkrísduftið út í lokin og smakkið ykkur til, þið viljið jafnvel setja meira af duftinu.
 4. Sprautið kreminu á kökurnar og skreytið með lakkrískúlum. Ég var með hindberja- og súkkulaðikúlur sem mér finnst algjört æði. Þær koma í bleikum umbúðum og á þeim stendur Love.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin fyrir utan lakkrísinn fást í verslunum Hagkaups en lakkrísinn fæst í verslunum Epal.

 

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *