Heimalagað múslí, ab mjólk og bananar, algjört lostæti í morgunsárið. Ég geri oft mitt eigið múslí, ég nota þá bara það sem ég á í skápunum hverju sinni svo múslíið hjá mér er aldrei eins.
Ég held að það geti flestir verið sammála um að múslí sé mjög gott og því er tilvalið að útbúa heimalagað múslí, setja það i fallega krukku og gefa sem gjöf. Gjafir sem er heimalagaðar eru að mínu mati dásamlegar. Ég hef verið að skoða svo mikið af skemmtilegum gjafahugmyndum fyrir jólin sem ég ætla að prufa og auðvitað kem ég til með að deila þeim með ykkur.
Heimalagað múslí
2 dl hafrar
2 dl hörfræ
2 dl sólkjarnafræ
2 dl möndlur
2 dl kókosmjöl
1 dl valhnetur
1/2 tsk kanil
1 dl rúsínur
2 dl vatn
1 dl olía t.d. kókos
1 dl lífrænt hunang
smá salt
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C. Setjið öll þurrefnin í blandarann og grófhakkið í smá stund. Blandið því næst vökvanum saman við og blandið vel saman með sleif. Dreifið blöndunni á bökunarpappír í ofnskúffu. Ég læt rúsínurnar með inn í ofninn vegna þess að ég vil hafa þær stökkar en auðvitað getið þið bætt þeim við eða hvaða ávöxtum sem þið viljið eftir að blandan kemur út úr ofninum.
Bakið í 15 mínútur, opnið þá ofninn og hrærið aðeins í blöndunni og bakið áfram í 10 – 15 mínútur. Þá ætti að múslíblandan að vera tilbúin. Að vísu hef ég blönduna alltaf svolitið lengur, eða þar til blandan er orðin vel dökk en það er bara vegna þess að ég vil hafa mitt múslí mjög stökkt. En þið fylgist bara með og smakkið ykkur auðvitað til.
Mjög einfalt og svakalega gott. Mæli svo sannarlega með að þið prufið.
Ég vona að þið njótið vel
xxx
Eva Laufey Kjaran