Frönsk súkkulaðikaka með gómsætu Pipp karamellukremi

 Þessi súkkulaðikaka verður mjög oft fyrir valinu þegar ég vil baka eitthvað sérstaklega gott. Það kannast líklega flestir við þessa ómótstæðilegu köku og þessi uppskrift er ótrúlega vinsæl. Hvaðan uppskriftin kemur veit ég ekki en mikil ósköp þakka ég þeim einstakling sem fann upp á henni. Sá á mikið lof skilið. Frönsk súkkulaðikaka á að vera dökk og þétt, svolítið eins og konfektmoli. Sumir setja hnetur í deigið og er það líka mjög gott. Persónulega finnst mér þessi kaka best með gómsætu karamellukremi og helst vil ég hafa hana svolítið kalda á meðan að öðrum þykir hún betri volg. 
 Frönsk súkkulaðikaka með gómsætu Pipp karamellukremi

Botn:

  • 200 g sykur
  • 4 egg
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g smjör
  • 1 dl hveiti
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C (blástur). Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin. Smyrjið bökunarfom eða setjið (eins og mér þykir best) bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið. Bakið kökuna í 30 mínútur. 

Pipp karamellukrem
  • 150 g Pipp karamellusúkkulaði
  • 70 g smjör 
  • 2 msk síróp
Aðferð: 
Brjótið súkkulaðið og bræðið saman við smjörið við vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu sósu. Hrærið vel í sósunni og bætið sírópinu saman við í lokin. Hellið sósunni yfir kökuna. Þessi sósa er ómótstæðilega góð og það er tilvalið að bera hana fram með fleiri kökum eða ísréttum. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum, það gerir kökuna enn betri. 

 Ég hef alltaf verið mjög hrifin af Pipp súkkulaðinu og nú er hægt að velja um fleiri bragðtegundir t.d. karamellu og banana sem að mínu mati eru mjög góð. 

Berið kökuna fram með þeyttum rjóma eða ís, það er algjört lostæti. 
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

1 comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *