Sítrónukaka með glassúr

Eitt kvöldið gat ég ekki sofnað… það var ekki vegna þess að ég fann ekki þægilega stellingu til þess að sofa í (já það er vandamál hjá óléttum konum haha) en ég gat ekki hætt að hugsa um sítrónukökur… ég sofnaði loksins en um leið og ég vaknaði þá dró ég fram bakstursdótið og prófaði þessa undursamlegu uppskrift að sítrónuköku sem róaði kökuóðu mig og ég gat sofnað vært næstu nótt. Kakan er svo eiginlega enn betri daginn eftir með morgunkaffinu! Mæli innilega með að þið prófið þessa sem allra fyrst.

Sítrónukaka sem allir elska

  • 400 g sykur
  • 240 g smjör
  • 3 egg
  • 380 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • salt á hnífsoddi
  • 2,5 dl vanillujógúrt eða ab mjólk
  • 1 sítróna, safi og börkur
  • 1 tsk vanilla

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C (Blástur)
  2. Þeytið saman sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós, bætið eggjum saman við. Einu í einu og þeytið vel á milli.
  3. Sigtið saman hveiti, lyftidufti og salti og blandið saman við eggjablönduna ásamt jógúrti, sítrónuberki, sítrónusafa og vanillu. Þeytið vel saman þar til deigið er orðið létt og fínt, gott ráð að stoppa einu sinni til tvisvar og skafa deigið meðfram hliðum svo þið náið að þeyta deigið mjög vel.
  4. Hellið deiginu í smurt form (helst smelluform ef þið eigið). Bakið kökuna við 180°C í 50 – 55 mínútur, stingið kökuprjóni í kökuna eftir þann tíma og ef prjóninn kemur hreinn upp úr kökunni er hún klár en annars er hún of blaut og þarf lengri bökunartíma.

Kælið kökuna þegar hún er klár og berið hana fram með ljúffengum sítrónuglassúr.

 

 

Sítrónuglassúr

  • 200 g flórsykur
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1/2 tsk vanilla
  • 1 msk rjómi eða mjólk

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál og hrærið vel saman þar til þið eruð ánægð með áferðina á glassúrnum, ég vil helst hafa hann í þykkari kantinum en ef þið viljið það síður þá bætið þið einfaldlega meiri mjólk eða rjóma saman við.

 

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *