Oreo brownies sem bráðna í munni

 

Vinkonur mínar komu til mín í sunnudagskaffi og bauð ég þeim meðal annars upp á þessa sjúklega góðu Oreo súkkulaðiköku sem bráðnar í munni. Þegar súkkulaði og Oreo koma saman er veisla, svo mikið er víst. Mér finnst brownies eða brúnkur alltaf svo góðar, stökkar að utan og mjúkar að innan. Það má svo líka leika sér með þessa uppskrift, skipta Oreo út fyrir annað góðgæti. Allt er nú hægt! Ég þori að lofa ykkur því að þið eigið eftir að baka þessa aftur og aftur… hún er það góð.

Oreo brownie

  • 170 g smjör
  • 190 g súkkulaði
  • 3 Brúnegg + 2 eggjarauður
  • 160 g púðursykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • salt á hnífsoddi
  • 1 msk kakó
  • 3 msk Kornax hveiti
  • 160 g Oreo kexkökur
  • súkkulaðisósa að eigin vali
Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 180°C. (blástur)Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita í potti.
  2. Þeytið egg, eggjarauður og púðursykur saman þar til eggjablandan verður létt og ljós.
  3. Hellið súkkulaðiblöndunni í mjórri bunu við eggjablönduna og hrærið vel saman.
  4. Bætið lyftidufti, salti, kakó,hveiti og smátt söxuðu Oreo út í deigið og blandið varlega saman með sleif.
  5. Hellið deiginu í smurt form (ég notaði 20 cm ferkantað kökuform) og bakið við 180°C í 25 – 30 mínútur. Leyfið kökunni að kólna alveg áður en þið takið hana úr forminu. Berið fram með rjóma eða ís og súkkulaðisósu sem þið sáldrið yfir.

 

 

 

 

Nú ætla ég að skottast fram í eldhús og næla mér í aðra sneið, það er heppilegt að það var svolítill afgangur í dag haha. Ég ætla síðan að koma mér vel fyrir framan sjónvarpið.
Svona eiga sunnudagskvöld að vera.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *