Nýja heimilið

Nú erum við flutt og íbúðin okkar verður heimilislegri með hverjum deginum, það er voða gaman að koma sér fyrir. Okkur líður vel hér í borginni, ekki það að okkur hafi ekki liðið vel á Akranesi. Það er bara svo ansi gott að sleppa akstrinum, mér finnst ég eiga miklu meiri tíma. 
Um helgina er fyrsta helgin í aðventu sem þýðir að það styttist í elsku jólin, tíminn flýgur áfram og það er nóg að gera fram að jólum. Ég ætla að reyna að baka eitthvað um helgina, hálf tómlegt að eiga engar smákökur á nýja heimilinu. Það gengur auðvitað ekki. 
Kökur gera heimilið enn heimilislegra og hlýlegra. 

Svona er útsýnið mitt þennan föstudagseftirmiðdag, ég sit hér drekk ljómandi gott kaffi og borða dásamlega súkkulaðibitaköku. Ég er að undirbúa ræðu sem ég ætla að flytja á morgun á Akranesi á stefnumótunarfundi í atvinnumálum.  Ég er einnig að undirbúa jólaútvarpsþátt sem ég verð með á morgun. Ég mæli þess vegna með að þið hlustið á Útvarp Akranes (95.0) klukkan 17.30 á morgun. Jólajóla. 🙂 
Ég vona að þið eigið góða helgi framundan kæru vinir. Ég hugsa að það sé ekkert svo galið að setja á sig svuntuna og baka nokkrar jólasmákökur. Svona til að eiga með kaffinu eða próflestrinum. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)