1. Bókin mín Matargleði Evu kom út þann áttunda nóvember. Það var dásamleg tilfinning að fá bókina í hendurnar eftir langa bið, ég er voða ánægð með bókina og ég er algjörlega í skýjunum yfir því hvað henni hefur verið vel tekið. Ég hélt útgáfuboðið sama daga og bókin kom út. Hátt í tvö hundruð manns komu og fögnuðu þessum áfanga með mér. Mikið sem ég er heppin að eiga allt þetta góða fólk. Ómetanlegt að eiga góða fjölskyldu, góða vini og auðvitað góða lesendur. Þúsund þakkir til ykkar allra. Án ykkar hefði ég ekki tækifæri til þess að gefa út matreiðslubók.
2. Rice Krispíes kakan dásamlega í tökum.
3. Kynning á Stöð 3 í Kringlunni, þættirnir mínir Í eldhúsinu hennar Evu eru einmitt sýndir á mánudögum á Stöð 3.
4. Fríðan okkar kom heim frá Ameríku, við skáluðum auðvitað í piparkökulatte í tilefni þess. Stefán Jóhann kemur líka heim frá New York fyrir jólin, mikil ósköp sem það verður gott að fá hann heim.
5. Það verður auðvitað allt að gerast á sama tíma svo ég hafi nú örugglega nóg að gera. Við erum flutt til Reykjavíkur. Málningarvinna og flutningar hafa einkennt síðustu daga. Íbúðin okkar verður heimilislegri með hverjum deginum og get ég ekki beðið eftir því að elda í fína eldhúsinu mínu og deila uppskriftum með ykkur.
6. Ég hélt bókakynningu á Akranesi eina helgina í nóvember, það var afskaplega huggulegt. Elskulegu vinkonur mínar komu auðvitað.
7. Mér fannst voða gaman að sjá bækurnar okkar saman á lista yfir mest seldu handbækurnar, nú er bókastríðið á milli okkar farið á fullt líkt og við vorum búin að tala um og hlæja mikið af.
8. Að byrja daginn á því að hægelda lamb er góð skemmtun, í kvöld er matreiðsluþátturinn minn Í eldhúsinu hennar Evu sýndur á Stöð 3 klukkan 20:45. Ég mæli með að þið fylgist með – hægeldað lambalæri, gott meðlæti og ljúffengur desert.
9. Bollakökur á leið í Ráðhúsið. Ég bauð upp á bollakökur á bókamessunni í Ráðhúsinu um helgina. Það var virkilega skemmtilegt.
10. Í dag naut ég þess að drekka jólakaffi, borða piparkökur, hlusta á jólalög og undirbúa jólaþætti sem við tökum upp á morgun. Jólajóla. Ég er orðin mjög spennt fyrir jólunum, það styttist nú heldur betur í þau.
Ég vona að þið hafið það rosalega gott. Ég vildi stinga nefinu aðeins hingað inn, bloggið hefur verið í smá dvala undafarið en vonandi hef ég meiri tíma næstu vikurnar. Því nú byrjar jólabaksturinn og þá vil ég auðvitað deila jólauppskriftum með ykkur.
xxx
Eva Laufey Kjaran