Íslenskar pönnukökur með Nutella og bönunum

Í morgun langaði mig svo í pönnukökur og auðvitað skellti ég í þessar einföldu og bragðgóðu pönnsur sem flestir kannast við. Íslenskar pönnukökur eru virkilega góðar og hægt að bera þær fram á ýmsa vegu t.d. með morgunkaffinu, í kaffitímanum með sultu og rjóma og svo í eftirrétt með ferskum berjum, súkkulaðisósu og ís. Það tekur enga stund að búa til ljúffengar pönnukökur og ilmurinn sem fer um heimilið er dásamlegur. Svona eins og að koma heim til ömmu á sunnudegi, það er nú ekkert sem toppar það. Amma hans Hadda bakar bestu pönnukökur sem ég hef smakkað og hún hefur gefið mér góð ráð varðandi pönnukökubaksturinn og pönnukökurnar mínar eru strax betri eftir að ég fór að hennar ráðum. Ömmur eru gull.

 

Íslenskar pönnukökur

ca. 18 – 20 pönnukökur
  • 2 Brúnegg
  • 1 dl sykur
  • 3 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 tsk kardimommudropar
  • smá salt
  • 3 msk brætt smjör
  • 4 – 5 dl mjólk, eða eftir þörfum
Aðferð:
1. Þeytið egg og sykur saman í hrærivél þar til eggjablandan verður létt og ljós.
2. Bætið þurrefnum saman við og hrærið, hellið vanillu, kardimommudropum, smjöri og mjólk saman við varlega.
3. Hrærið í deiginu með sleif á  þessu stigi, mér finnst það langbest en þá get ég betur stjórnað áferðinni á deiginu. Pönnukökudeigið á að vera þunnt og þið getið prófað að steikja eina pönnuköku, ef ykkur finnst hún of þykk þá bætið þið einfaldlega meiri mjólk saman við þar til þið eruð ánægð.
Berið pönnukökurnar strax fram og þá gjarnan með Nutella og bönunum eins og ég fékk mér í morgun. Annars finnst mér fátt betra en pönnukökur með sultu og rjóma. Ójá, ég gæti haldið áfram að telja upp möguleikana en nú er komið að ykkur að prófa og ég vona að þið njótið vel.

 

 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *