Mér finnst mjög ólíklegt ef pastaástin mín hefur farið framhjá ykkur en sú ást stigmagnast á degi hverjum, sérstaklega eftir að ég eignaðist pastavél.. mamma mía hvað ég verð að mæla með slíku tæki í eldhúsið ef þið eruð mikið fyrir pasta og langar að prófa að búa til sjálf. Ég skil ekkert í mér að hafa ekki prófað það fyrr – það er svo lygilega einfalt að búa til pasta, ég er að segja ykkur það satt. Hér er uppskrift sem ég elska og gæti borðað í öll mál, fyllt pasta með ricotta osti og spínatfyllingu… þið verðið bara að prófa.
Heimalagað ravioli með ricotta- og spínatfyllingu.
Pastadeig
- 400 g hveiti
- 3 egg
- 4 eggjarauður
- 1 ½ msk ólífuolía
- 1 tsk salt
Aðferð:
Setjið hveiti á borðflöt og gerið holu í miðjuna á hveitinu, setjið egg, eggjarauður, salt og ólífuolíu í holuna og blandið öllum hráefnum saman með höndum. Hnoðið deigið vel í nokkrar mínútur og sláið deiginu upp í kúlu, setjið plastfilmu yfir kúluna og geymið deigið í kæli í 30 – 40 mínútur. Skiptið deigið í þrjá hluta og fletjið hvern hluta út, í pastavél eða með kökukefli. Gerið litla hringi í deigið til dæmis með hvítvínsglasi, sprautið fyllingunni ofan á deigið og setjið lok yfir. Lokið deiginu með því að þrýsta vel á endana og gott er að nota gaffal til þess að þrýsta á í lokin. Þannig tryggjum við að fyllingin leki ekki út þegar við sjóðum pastað.
Sjóðið í vel söltu vatni í um það bil fjórar mínútur. Berið strax fram með ljúffengu salvíusmjöri.
Ricotta- og spínatfylling.
- 1 msk ólífuolía
- 250 g spínat
- 200 g ricotta ostur
- 1 hvítlauksrif
- 1 egg
- ½ dl rifinn parmesan
- 2 msk smátt söxuð basilíka
- salt og pipar
Aðferð:
Hitið olíu á pönnu, saxið niður spínat og steikið þar til spínatið verður mjúkt í gegn.
Blandið spínatinu saman við ricotta ostinn í skál og bætið pressuðu hvítlauksirif, einu eggi, nýrifnum parmesan og smátt saxaðri basilíku út í og blandið vel saman. Kryddið til með salti og pipar.
Setjið fyllinguna til dæmis í sprautupoka og sprautið á pastadeigið eða notið einfaldlega skeiðar í verkið. Best er að kæla fyllinguna svolítið áður en þið sprautið á pastadeigið.
Salvíusmjör
- 100 g smjör
- fersk salvía, handfylli
Aðferð:
Bræðið smjörið á pönnu, saxið niður ferska salvíu og setjið út á pönnuna. Steikið salvíuna þar til hún er orðin stökk. Berið fyllt ravioli fram með þessu ljúffenga salvíusmjöri og nýrifnum parmesan.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.