Gulrótarkaka drauma minna

Í kökubókinni minni Kökugleði Evu má finna uppskrift að ómótstæðilegri gulrótarköku með geggjuðu rjómaostakremi sem ég bara veit að þið eigið eftir að elska jafn mikið og ég.

Gulrótarkaka með heimsins besta rjómaostakremi

BOTNAR:

 • 4 egg
 • 5 dl púðursykur
 • 5 dl rifnar gulrætur
 • 3 dl kurlaður ananas (úr dós)
 • 5 dl hveiti
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk vanilludropar  
 • 1 tsk kanill
 • 3,25 dl bragðdauf matarolía

Aðferð:

 1. Forhitið ofninn í 180°C.
 2. Þeytið sykur og egg þar til blandan er orðin ljósbrún.
 3. Rífið niður gulrætur (mér finnst gott að gera það í matvinnsluvél) og setjið þær út í deigið ásamt og kurluðum ananas. Gott að geyma vökvann úr ananas dósinni.
 4. Bætið þurrefnum, vanillu og olíu saman við og þeytið þar til deigið hefur blandast vel saman. Það er alltaf gott að stoppa einu sinni til tvisvar, skafa meðfram hliðum og halda áfram að þeyta.
 5. Smyrjið tvö eða þrjú jafn stór hringlaga form og skiptið deiginu jafnt í formin (gott að nota vigt til þess að hafa þau nákvæmlega jafn stór).
 6. Bakið botnana við 180°C í 30 – 35 mínútur.
 7. Stingið kökuprjóni í kökuna eftir um það bil 30 mínútur, ef kakan er enn blaut þá þarf hún aðeins lengri tíma.
 8. Kælið botnana mjög vel áður en þið setjið á þá krem, best er að skreyta kökuna þegar botnarnir eru kaldir og helst frosnir ef þið viljið til dæmis gera kökuna degi áður en þið ætlið að bera hana fram.

Besta rjómaostakremið

 • 300 g smjör, við stofuhita
 • 400 g hreinn rjómaostur, við stofuhita
 • 500 g flórsykur
 • 100 g hvítt súkkulaði
 • 2 tsk vanilludropar

Ofan á:

 • Saltkaramellusósa
 • 100 g ristaðar pekanhnetur

Aðferð:

 1. Þeytið smjör og rjómaost saman þar til blandan verður létt.
 2. Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og leggið til hliðar.
 3. Bætið flórsykri og vanillu út í kremið og þeytið áfram. Hellið hvíta súkkulaðinu samna við og þeytið þar til kremið er silkimjúkt. Það gildir það sama með krem og deig, gott að stoppa einu sinni til tvisvar og skafa meðfram hliðum.

Kremið er mjög mjúkt og stundum er ágætt að kæla það í 2 – 3 mínútur áður en þið skreytið kökubotnana, en þið smyrjið kreminu á milli botnana og þekið svo kökuna með kreminu. Því næst kælið þið kökuna þar til kremið er alveg stíft og þá fer ljúffeng söltuð karamellusósa yfir ásamt ristuðum pekanhnetum.

Söltuð karamellusósa:

 • 3 dl sykur
 • 4 msk smjör
 • 1 – 2 dl rjómi
 • Sjávarsalt á hnífsoddi

Aðferð:

 1. Setjið sykurinn á pönnu og bræðið hann við vægan hita.
 2. Þegar sykurinn er allur bráðinn bætið þá smjörinu saman við og hrærið vel, hellið því næst rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er silkimjúk.
 3. Í lokin bætið þið saltinu saman við.

Ath! Sósan er fremur þunn til að byrja með en um leið hún kólnar þá þykknar hún og best er að leyfa henni að kæla sig við stofuhita, það má flýta fyrir með því að setja inn í ísskáp en fylgist vel með þar sem hún gæti orðið of stíf til þess að hella yfir kökuna. En það er mjög mikilvægt að hún sé köld þegar hún fer yfir kökuna annars er líklegt að kakan renni út um allt.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *