Það er bæði einstaklega ánægjulegt og róandi að baka sitt eigið brauð. Það veitir öryggistilfinningu að vita nákvæmlega hvað fer í brauðið og svo er notalegt að fylgjast með bakstursferlinu. Í morgun bakaði ég gróft heilhveitibrauð með ýmsum korntegundum. Heilhveiti er malað með kími og klíði og er mun næringarríkara en hvítt hveiti. Heilhveiti hentar ágætlega til brauðgerðar en deig úr því er þó aðeins þyngra í sér en brauð úr hvítu hveiti. Ég notaði eingöngu heilhveiti í þetta brauð en það er líka ágætt að blanda hvítu hveiti saman við heilhveitið þegar bakað er úr því. Ég sigta alltaf hveiti áður en ég nota það í bakstur og það er engin undantekning með heilhveiti, Það gerir gæfumuninn. Hér kemur uppskriftin að grófu og góðu brauði…