Einfaldar og fljótlegar uppskriftir eru gulls í gildi, sérstaklega yfir sumartímann en þá er svo gott að geta skellt í uppskrift sem krefst ekki mikillar fyrirhafnar. Þið vitið – afþví við erum auðvitað föst í sólbaði alla daga 😉 Ég elska brúskettur og þessi uppskrift sem ég ætla að deila með ykkur er líklega sú sem ég geri oftast og mér finnst hún aldrei klikka. Hráefnin eru ekki mörg en það þarf nefnilega alls ekki að flækja málin þegar hráefnin eru svo góð.
Brúskettur með ricottaosti og kirsuberjatómötum
- 1 fínt snittubrauð
- 1 msk ólífuolía
- 200 g ricotta ostur
- 20 kirsuberjatómatar
- 2 msk smátt söxuð basilíka
- ½ hvítlauksrif
- 1 msk ólífuolía
- ¼ tsk balsamikedik
- sítrónubörkur
- salt og pipar
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C.
Skerið niður snittubrauð í fínar sneiðar og leggið á pappírsklædda ofnplötu, sáldrið ólífuolíu yfir og bakið í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er orðið gullinbrúnt.
Skerið niður kirsuberjatómata, pressið hvítlauk og saxið niður basilíku, blandið öllu saman í skál og bætið ólífuolíu og balsamikedik saman við. Kryddið til með salti og pipar.
Smyrjið hverja brauðsneið með nóg af ricotta osti, setjið væna skeið af tómatamaukinu ofan á og rífið niður sítrónubörk rétt í lokin ásamt nýrifnum parmesan auðvitað.
Fullkomið sumarsnarl!
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.