Súkkulaðibollakaka með hvítu súkkulaðismjörkremi er alltaf góð hugmynd og sérstaklega um páskana. Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert rosalega mikið fyrir páskaegg, ég vil heldur baka eitthvað gott og njóta þess. Ekki að ég stelist ekki í páskeggin hjá fjölskyldumeðlimum, það er önnur saga. Súkkulaðibollakökur með súkkulaðibitum og nóg af kremi er fullkomið á páskadag og ég mæli með að þið prófið þessar, þær eru mjög einfaldar og ég elska hvað maður er fljótur að baka bollakökur.
Við erum búin að hafa það ótrúlega gott undanfarna daga, erum í sveitinni og ætlum svo í dag upp á Akranes að hitta fjölskylduna okkar þar. Göngutúrar, lestur, leti, sund, góður matur og félagsskapur einkennir þessa helgi og mikið elska ég það. Ég vona að þið séuð að njóta í botn með ykkar fólki.
Súkkulaðibollakökur fyrir sælkera
- 115 g súkkulaði, helst 50 – 70 %
- 90 g smjör, við stofuhita
- 175 g sykur
- 2 egg, aðskilinn
- 185 g Kornax hveiti
- 3/4 tsk lyftiduft
- 3/4 tsk matarsódi
- salt á hnífsoddi
- 2 1/2 dl mjólk
- 1 tsk vanilla extract eða vanillusykur
- 60 g dökkt súkkulaði, hakkað
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C.
- Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði, hrærið vel í á meðan og passið að súkkulaðið brenni ekki. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar og kælið.
- Þeytið saman sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós, blandið eggjarauðum saman við og þeytið áfram.
- Næsta skref er að hella súkkulaði saman við og halda áfram að þeyta.
- Sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt. Blandið hveitiblöndunni saman við súkkulaðiblönduna og hrærið vel saman. Hellið mjólkinni varlega saman við og vanillunni.
- Stífþeytið eggjahvítur og blandið þeim varlega saman við deigið með sleif.
- Saxið dökkt súkkulaði og blandið við deigið í lokin.
- Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 200°C í 20 – 22 mínútur. Kælið kökurnar áður en þið setjið á þær krem.
Kremið sem ég sprautaði á kökurnar er hvítt súkkulaðikrem. Þegar ég baka bollakökur þá nota ég yfirleitt þetta krem, það er ofsalega bragðgott og það er mjög gott að skreyta kökur með þessu kremi. Ef ykkur finnst kremið ekki nógu stíft þá bætið þið meiri flórsykri saman við.
- 250 g smjör, við stofuhita
- 400 – 450 g flórsykur
- 150 g hvítt súkkulaði
- 1 – 2 tsk vanilla extract eða sykur
- 1 – 2 msk rjómi eða mjólk
- Gulur matarlitur
- Súkkulaðiegg
Aðferð:
- Það er mikilvægt að gefa sér tíma fyrir þetta krem. Þeytið saman smjör og flórsykur í 5 – 6 mínútur, stoppið tvisvar sinnum og skafið meðfram hliðum.
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og blandið því saman við kremið. Þeytið kremið í 3 – 4 mínútur. Næsta skref er að bæta vanillu og rjóma/mjólk. Ég vil að kremið sé mjög mjúkt og þess vegna finnst mér frábært að nota smá rjóma en það er auðvitað hægt að nota mjólk líka. Þeytið kremið í 4 mínútur til viðbótar eða þar til þið eruð ánægð með kremið. Ef þið viljið lita kremið þá bætið þið smávegis af matarlit út í lokin, ég nota gel matarliti frá Wilton.
Njótið vel og eigið yndislega páska með fjölskyldunni ykkar.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir