Páskasteikin – Nautalundir með Hasselback kartöflum og piparostasósu

Þessi uppskrift miðast við fjóra til fimm.

Það er fátt sem jafnast á við góða steik og gott meðlæti. Þessar nautalundir eru mjög bragðgóðar og safaríkar.

Nautalundirnar

1 kg nautalund, skorin í fjóra jafnstóra bita
svartur pipar og gróft 
sjávarsalt 
4-5 msk smjör

Hasselback kartöflur


4 stórar kartöflur
50 g smjör 
2 msk ólífuolía
maldon salt og pipar
fersk steinselja

Piparostasósa


1 peli rjómi 
½ piparostur
½ kjúklingakraftsteningur

Ferskt salat með 
smjörsteiktum perum


1 msk smjör 
2 perur
1 poki klettasalat 
1 tsk góð ólífuolía 
1 tsk balsamikedik
salt og nýmalaður pipar
fetaostur, magn eftir smekk


Nautalundir


Bræðið smjörið á pönnu. Kryddið nautalundina með salti og pipar 
og brúnið vel á öllum hliðum. Setjið hana í eldfast mót og steikið 
við 140°C í 15-20 mínútur. Látið kjötið standa á borðinu í að 
minnsta kosti 8 mínútur áður en þið berið það fram.


Hasselback kartöflur


Þessar kartöflur eru klassískt meðlæti með kjöti, rekja má þessar kartöflur til Svíþjóðar. Þær eru bæði svakalega góðar og einfaldar. 


Hitið ofninn í 220°C. Skolið kartöflurnar og skerið svo raufar í 
þær með stuttu millibili. Skerið djúpt niður en 
passið að kartaflan detti ekki í sundur. Smjör og olía eru brædd 
saman í potti. Raðið kartöflunum í ofnskúffu og hellið bræddu 
blöndunni yfir. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið 
þeim þannig vel upp úr feitinni. Stráið maldon salti og pipar yfir 
kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í 55-60 mínútur. Mér 
finnst dásemd að skera niður ferska steinselju og sáldra yfir 
kartöflurnar þegar þær eru komnar út úr ofninum. 

Piparostasósa


Þessa sósa er ljúffeng ein og sér, svo góð er hún. Hún hentar vel með kjöti, kjúkling og pastaréttum. Mæli með að þið prófið ykkur áfram með þessa sósu. 

Hitið rjóma við vægan hita í potti, skerið piparostinn í litla bita og 
bætið út í. Hrærið reglulega í pottinum, bætið ½ teningi af 
kjúklingakrafti saman við og hrærið vel í sósunni.

Ferskt salat með smjörsteiktum perum


Hitið smjör á pönnu, skerið perur í þunna strimla og snöggsteikið 
í 1-2 mínútur. Skolið klettasalatið og blandið öllum hráefnunum 
saman í skál. Perur eru einstaklega góðar þegar þær eru búnar að 
steikjast í smjöri, sætan af þeim er hreint út sagt himnesk.

Ég mæli með þessum tveimur eftirréttum, þeir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. 
Ég vona að þið hafið það gott um páskana kæru vinir og njótið þess að vera með fólkinu ykkar. 
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *