Mjúkir kanilsnúðar með glassúr lífga upp á tilveruna, ég segi það og skrifa. Það er eitthvað svo ómótstæðilega gott við þessa snúða og heimilið ilmar svo vel á meðan bakstrinum stendur. Ég tengi þessa snúða alltaf við eina skemmtilega minningu frá því að ég bjó í Noregi. Bakkelsið í Noregi er ekkert sérlega spennandi og norðmenn eru ekki mikið að dúllast í bakstri, þess vegna lá mér lífið á þegar mamma bakaði þessa gómsætu snúða að fá vinkonur mínar til þess að koma í smakk. Þegar snúðarnir voru tilbúnir þá hljóp ég út í næsta hús og þar voru nokkrar vinkonur mínar sem ég bauð að koma með mér heim og smakka snúðana, þegar heim var komið sátu tveir yngri bræður mínir og þeirra vinir í essinu sínu með súkkulað út á kinn og aðeins tveir snúðar eftir.
Ég man það svo sterkt því ég var svo aldeilis vonsvikin að geta ekki gefið öllum vinkonum snúð, við skiptum þó þessum tveimur snúðum á milli okkar og þær voru sammála um að þetta væru bestu snúðar sem þær höfðu smakkað. Íslenska stúlkan var mjög montin og brosti út í eitt með súkkulaði út á kinn.
Mjúkir kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr.
Deig:
700 – 800 g hveiti
100 g sykur
1 tsk vanillusykur
2, 5 tsk þurrger
250 ml mjólk
70 ml ljós olía
2 egg
1 tsk salt
Fylling:
50 g sykur
100 g smjör
2 – 3 msk kanill.
Aðferð:
Öllum þurrefnum í deigið er blandað vel saman, bætið vökvanum saman og hnoðið vel. Breiðið röku viskustykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 – 40 mínútur. Á meðan að við bíðum eftir deiginu þá getum við útbúið fyllinguna. Hitið smjörið í potti, passið að bræða það ekki alveg og bætið sykrinum og kanil saman við.
Þegar deigið hefur hefað sig er það flatt út og smurt með fyllingunni. Deiginu er svo rúllað út og skorið í hæfilega marga snúða. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, raðið snúðunum á pappírinn og leggið viskustykki yfir þá, rakt viskustykki. Leyfið þeim að standa í 30 mínútur áður en þeir fara inn í ofn.
Þessi mynd fangar mjög huggulega stemmningu, ég bakaði þessa snúða fyrr í vikunni og þá var grenjandi rigning úti en inni var mjög notalegt.
Bakið snúðana við 170°C í 13 – 15 mínútur.
Á þessum tímapunkti er mjög erfitt að standast þá freistingu að fá sér einn snúð, ég stelst alltaf í einn áður en ég læt á þá glassúr. Það er eiginlega skylda að drekka ískalda mjólk með.
Súkkulaðiglassúr.
100 g smjör, brætt
300 g flórsykur
1 tsk vanillusykur
50 g kakó
50 g kakó
3 msk sterkt uppáhellt kaffi
1 msk mjólk
Þessu er öllu blandað vel saman og smurt á snúðana, ég sáldraði smá kókosmjöli yfir nokkra snúða og það kom mjög vel út.
Ískalt mjólkurglas og nýbakaðir snúðar með glassúr, þessir snúðar voru ekki lengi að hverfa á nokkrum klukkustundum. Ég fékk 16 snúða úr uppskriftinni og þeir voru mjög ljúffengir. Þetta er mjög klassísk uppskrift og það eiga flestir uppskriftir sem hafa fylgt fjölskyldum í áraraðir, mér þykir svo vænt um svona uppskriftir sem fara með mann í smá ferðalag. Eins og t.d. þessir snúðar fara alltaf með mig í ferðalag í eldhúsið í krúttlega rauða húsinu sem við bjuggum í, þegar ég ákvað að það væri snjallræði að bjóða norðmönnum loksins upp á almennilegt bakkelsi.
Ég vona að þið njótið dagsins og ég mæli auðvitað með að þið prófið þessa uppskrift sem er svo afskaplega einföld og góð.
xxx
Eva Laufey Kjaran