Fyllt snittubrauð

Fyllt snittubrauð með pestófyllingu og hvítlauksfyllingu eru afar ljúffeng
og einföld í gerð. Ég elska þessi brauð og geri þau mjög oft, þau eru frábær
með súpu eða þá ein og sér. Það þarf alls ekki að vera flókið að baka sitt
eigið brauð og mér finnst það alltaf svo gaman, sérstaklega vegna þess að þá
veit ég nákvæmlega hvað fer í brauðið. Uppskriftin er mjög einföld og það tekur
ekki langa stund að útbúa þessi brauð, þið getið svo auðvitað bætt öllu því sem
þið viljið í brauðin og um að gera að prófa sig áfram. Ég mæli með að þið
prófið þessa uppskrift um páskana og ég vona að þið njótið vel.

Snittubrauð

 • 500g brauðhveiti frá Kornax
 • 320ml volgt vatn
 • 1msk hunang
 • 15 gger
 • 1tsk salt
 • 2  msk ólífuolía
 • Handfylli rifinn mozzarella ostur
Pestófylling
 • 5-6 msk rautt pestó (ég notaði pestó frá merkinu Ítalía,
  fæst í Hagkaup)
 • 2 msk fetaostur + smávegis af olíu
 • Salt og pipar
Ólífubrauð
 • 12-14 grænar ólífur
 • 2 – 3 hvítlauksrif
 • 2 msk ólífuolía
 • Salt og pipar
 • 1 tsk. Ítölsk kryddblanda
Aðferð:
 1. Blandið þurrgeri, volgu vatni og hunangi saman. Setjið
  viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að vakna í rólegheitum, það tekur 6 –
  8 mínútur. Þegar byrjar að freyða í blöndunni er hún tilbúin.
 2. Blandið gerblöndunni, hveiti, salti og olíu saman og
  hnoðið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður mjúkt. Setjið viskastykki
  yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund.
 3. Búið til tvær lengjur úr deiginu og  skerið
  létt í brauðin eftir endilöngu.
 4. Látið hefast á ný í 20 – 30 mínútur.
 5. Hitið ofninn í 230°C.
 6. Útbúið fyllingarnar og smyrjið ofan á brauðin, sáldrið
  rifnum osti yfir og bakið við 220 – 230°C í 10-12 mínútur eða þar til osturinn verður
  gullinbrúnn.
Einfalt og hriklega góð uppskrift.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *